Fréttir


Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kveður starfsfólk Orkustofnunar 

2.12.2016

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kvaddi starfsfólk Orkustofnunar þann 1. nóvember sl. en með henni för var starfsfólk ráðuneytisins á sviði orkumála. 

Í erindi sínu þakkaði ráðherrann orkumálastjóra Guðna A. Jóhannessyni og starfsfólki stofnunarinnar fyrir ánægjulegt og gott samstarf í ráðherratíð hennar.  

Í máli ráðherrans kom fram að unnið hefur verið að fjölmörgum stórum málum á sviði orku á vegum ráðuneytisins í nánu samstarfi við Orkustofnun á umræddu tímabili og þar má m.a. nefna:

 •      Fullar niðurgreiðslur húshitunar og full jöfnun dreifikostnaðar
 •      Flutningskerfi raforku
 •      Stefnumörkun í orkumálum
 •      Orkuskipti
 •      Sæstrengur
 •      Bætt afhendingaröryggi raforku á jaðarsvæðum
 •      Fjárfestingarverkefni – Ný rammalöggjöf – Stefna stjórnvalda um nýfjárfestingar
 •      Olíuleit
 •      Svæðisbundnar áherslur
 •      Niðurlagning orkuráðs
 •      WACC og flutningskostnaður

Auk þess hefur verið samstarf á milli ráðuneytisins og  Orkustofnunar, á tímabilinu 2013–2016, á fjölmörgum öðrum sviðum.  

Í ávarpi orkumálastjóra Guðna A. Jóhannessonar, þakkaði hann einnig ráðherra og starfsfólki ráðuneytis fyrir mikið og ánægjulegt samstarf á umræddu tímabili.

Í máli hans kom fram að verkefni á sviði orkumála verða sífellt umfangsmeiri og alþjóðlegri. Í því sambandi má t.d. nefna aukna áherslu á endurnýjanlega orku um allan heim í tengslum við mikilvægi þess að draga úr gróðurhúsaáhrifum til að forðast hnattræna hlýnun.

Orkustofnun hefði einnig fengið fjölda gesta, fyrirspurna og óska um aðstoð í stefnumörkun, verkefnum og fundum frá erlendum aðilum, til uppbyggingar á sviði endurnýjanlegrar orku í samstarfi við íslenska aðila. Reynt hefur verið að sinna þessum erindum eftir efni og aðstæðum.

Þá benti Guðni á mikilvægi orkumála almennt fyrir þjóðfélagið, þar sem orka væri ein mikilvægasta undirstaða hagkerfisins. Orkuöryggi, gæði og verð væri grundvöllur fyrir allar aðrar atvinnugreinar og heimili.  

Öflug og fjölbreytt starfsemi Orkustofnunar er því mikilvæg til að stuðla að  áframhaldandi hagstæðri þróun á sviði orkumála, m.a. með öflugu eftirliti, greiningum, samstarfi og stefnumótun á þessu sviði.