Fréttir


Vegna fréttar um fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá Landsnets 

26.10.2016

Vegna fréttar í Fréttablaðinu þann 26. október 2016 um fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá Landsnets til almennings vill Orkustofnun koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt raforkulögum reiknar Orkustofnun Landsneti tekjumörk á fimm ára fresti. Tekjumörk Landsnets eru svo gerð upp árlega og ákvarðar uppgjör tekjumarka þann raunverulega tekjuramma sem fyrirtækið hefur. Tekjumörk fyrir stórnotendur og fyrir almenna notendur eru reiknuð í sitthvoru lagi og gilda því ólíkar gjaldskrár fyrir stórnotendur og almenna notendur. Til dæmis getur þróun tekjumarka almennra notenda og stórnotenda tímabundið verið mismunandi vegna mismunar á kjörum fyrir innlenda og erlenda fjármögnun. 


Tekjumörk eru reiknuð út frá rekstrakostnaði Landsnets sem er byggður á meðaltali, raunverulegum afskriftum og arði, þar sem arðsemi er reiknuð út frá gildum sem ákvörðuð eru á grundvelli settra reglna. Ef uppsafnaðar tekjur hafa verið að þróast umfram tekjuramma Landsnets, þannig að þær eru meira en 10% af tekjumörkum í uppgjöri tekjumarka, er flutningsfyrirtækinu skylt að lækka gjaldskrá sína. Ef, hins vegar, uppsafnaðar tekjur hafa verið að þróast þannig að tekjumörk eru hærri en tekjur flutningsfyrirtækisins er heimilt að flytja 10% af afgangnum, þar sem fjallað er um uppsafnaðar vanteknar tekjur, á milli ára. Uppsafnaðar vanteknar tekjur eru því þær tekjur sem Landsnet á inni hjá notendum. Ef uppsafnaðar vanteknar tekjur eru umfram 10% við uppgjör tekjumarka, afskrifast þær niður að 10% viðmiðinu.

Landsnet hefur nú sent Orkustofnun fyrirhugaða gjaldskrárbreytingu til skoðunar þar sem fyrirhugað er að hækka gjaldskrá til almennra notenda um 13% frá og með 1. desember nk. Almennt séð getur Orkustofnun gert athugasemdir við fyrirhugaðar gjaldskrárbreytingar og óskað eftir frekar rökstuðningi fyrir þeim. 

Við uppgjör tekjumarka Landsnets 2015, frá 24. júní sl., kom í ljós að uppsafnaðar vanteknar tekjur voru umfram 10% og gefur það því Landsneti mögulegt svigrúm til að hækka gjaldskrá. Taka skal fram að það er Landsnet sem tekur ákvarðanir um breytingar á gjaldskrám og er ekki skylt að hækka gjaldskrá þó svo að svigúm myndist í tekjuramma fyrirtækisins.