Fréttir


Gera má ráð fyrir auknum áhuga á beislun vindorku hér á landi

12.10.2016

Orkustofnun hefur í dag skilað umsögn sinni til Skipulagsstofnunar um tillögu að umhverfismatsáætlun fyrir Vindaborg, 45 MW vindorkugarð í Þykkvabæ, Rangárþingi ytra

Í umsögn sinni fjallar Orkustofnun almennt um vindorku sem virkjunarkost og bendir m.a. á að mikill kostnaður við beislun vindorku utan landsteina gerir vindorkubú á landi, sem eru umtalsvert hagkvæmari, að eftirsóknarverðum orkukosti, einnig hér á landi. 


Tekið er fram í umsögninni að á Íslandi skorti ekki landsvæði sem opin séu fyrir vindi og eru sum þeirra einstaklega hagstæð til nýtingar vindorku þar sem lítill gróður og strjálbýli stuðlar að sambærilegum skilyrðum á landi og almennt er verið að sækjast eftir úti á hafi. 

Þar sem mikil umfram eftirspurn er eftir raforku á Íslandi má gera ráð fyrir auknum áhuga á beislun vindorku hér á landi. 

Að mati Orkustofnunar er brýnt að huga að ítarlegri lagaramma um nýtingu vindorku, einkum varðandi skilgreiningu á vindorkugörðum eða vindbúum. Því fyrr sem þetta er gert því betra, en það útilokar samt ekki að vindorkugarðar séu teknir til hlutlægrar og stjórnsýslulegrar efnismeðferðar með vísan til fyrirliggjandi lagaákvæða, einkum ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslaga og raforkulaga. 

Umsögnina, í heild sinni,  má sjá hér.