Fréttir


CNOOC, Eykon og Petoro bjartsýn á stöðu og framhald olíuleitar

7.10.2016

Kínverska olíufélagið CNOOC International fundaði nýverið með Orkustofnun og samleyfishöfum sínum, Eykon ehf. og norska ríkisolíufélaginu Petoro.  Bjartsýni ríkti á fundinum og gefa niðurstöður mælinga sem fram fóru 2015 tilefni til áframhaldandi rannsókna.

Á fundi kínverska ríkisolíufélagsins CNOOC International, framkvæmdaraðila leyfishafa olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu, ásamt íslenska félaginu Eykon ehf. og norska ríkisolíufélaginu Petoro Iceland sem haldinn var þann 27. september sl., var gerð grein fyrir fyrstu niðurstöðum jarðfræðinga og jarðeðlisfræðinga CNOOC á tvívíðum endurkastsmælingum (2D seismic) sem gerðar voru haustið 2015. Áætlað er að niðurstaða allra mælinga liggi endanlega fyrir haustið 2017, sem er í samræmi við tímaáætlun olíuleitarinnar. Að mati sérfræðinga CNOOC, byggðu á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja nú þegar fyrir, hníga rök til þess að halda rannsóknum áfram, með þrívíðum endurkastsmælingum (3D seismic) á völdum stöðum innan leyfissvæðisins á Drekasvæðinu. Slík svæði yrðu þá valin undir lok næsta árs og  mælingar gætu hafist strax í framhaldi þess, þó rannsóknaráætlun geri ráð fyrir að þær hefjist ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2018. Gefi þær rannsóknir tilefni til frekari skoðunar, yrði leitarhola boruð í framhaldinu, samkvæmt rannsóknaráætlun á árabilinu 2022-2026. Kæmi til vinnslu kolvetna á svæðinu, þ.e. olíu eða gass, sýnir reynslan að það gæti tekið 10 ár að hefja slíka vinnslu eftir olíu- eða gasfund, þó enn ríki vissulega mikil óvissa þess hvort vinnanleg kolvetni finnist á Drekasvæðinu. 

Niðurstöður tvívíðra endurkastsmælinga kanadíska félagsins Ithaca Petroleum sem er hinn rekstraraðili leyfishafa olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu, ásamt Kolvetni og Petoro, sem safnað var í sumar af leitarleyfishafanum Seabird Exploration er að vænta í byrjun desember n.k. en ákvörðun þarf að liggja fyrir í því leyfi fyrir janúar 2017 hvort haldið verður áfram með leyfið eða það gefið eftir.