Fréttir


Sviðsmyndir um eldsneytisnotkun 2016 - 2050

29.9.2016

Ný skýrsla Orkustofnunar  gerir grein fyrir helstu sviðsmyndum um eldsneytisnotkun á landinu næstu áratugina.  Í Eldsneytisspá Orkuspárnefndar frá árinu 2016 er sett fram spá um þróun eldsneytisnotkunar og annarra tengdra orkugjafa til ársins 2050 miðað við óbreyttar aðstæður.

Spáin er greind niður í mismunandi notkunarflokka og þar á meðal samgöngur á landi og fiskveiðar. Þar kemur fram spá um líklegustu þróunina en einnig eru birtar lág- og háspár sem fást með því að breyta forsendum spárinnar til að kanna vikmörk.

Forsendur spárinnar eru fjölmargar og er meðal annars farið ítarlega yfir tækniframfarir og breytingar í notkunarmynstri í þeim atriðum sem tengjast eldsneytisnotkun. Umgjörð stjórnvalda skiptir verulegu máli þegar kemur að eldsneytisnotkun og geta stjórnvöld sett fram hvata til að ná fram breytingum. Ómögulegt er að spá fyrir um hvernig umgjörð stjórnvalda breytist og að sama skapi hvenær vænta má slíkra breytinga. Allar spár orkuspárnefndar miða að við núverandi umgjörð stjórnvalda hvað varðar eldsneytis- og orkumál breytist ekki á spátímanum. Spárnar eru því það sem kallast á ensku „business as usual“. 

Eins og fram kemur í Eldsneytisspá er núverandi notkun eldsneytis mest í samgöngum á landi en þar á eftir koma millilandaflug og fiskveiðar. Ekki er búist við nýjum orkugjöfum í millilandaflugi fyrr en í litlum mæli undir lok spátímans. Eftirspurn eftir eldsneyti í millilandaflugi ræðst af fjölda ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll og orkunotkunar á hvern floginn km. Í iðnaði hefur á undanförnum árum orðið mikill samdráttur í olíunotkun og raforka notuð í staðinn. Í Eldsneytisspá er búist við því að olíunotkun haldi áfram að dragast saman í iðnaði og verði fljótlega lítil í samburði við fyrrnefnda flokka og því er ekki sett fram sviðsmynd fyrir iðnað. Hér á eftir verða birtar þrjár sviðsmyndir þar sem ákveðnum forsendum í spánni hefur verið breytt til þess að kanna áhrif sérstakra aðgerða á orkunotkun í samgöngum á landi og í sjávarútvegi.

Tilkoma nýrra orkugjafa í verulegum mæli í samgöngum á landi og í fiskveiðum getur krafist töluverðrar uppbyggingar innviða. Má þar nefna útbúnað til hleðslu rafbíla hvort sem er í heimahúsum, við verslanir og fyrir hleðslu skipa á rafmagni í höfnum. Að auki getur þurft sérhæfða innviðafjárfestingu fyrir sölu á endurnýjanlegu eldsneyti auk þess sem hið endurnýjanlega eldsneyti getur verið dýrara í innkaupum samanborið við hið hefðbundna eldsneyti. Innviðafjárfestingin og kostnaður við eldsneytiskaup hafa ekki verið metin í úttekt þessari enda væri verulegt við að meta slíkt. Þær leiðir sem hér um ræðir ættu þó ekki að kalla á mikla uppbyggingu innviða umfram það sem verður skv. eldsneytisspá þar sem tengiltvinnbílar verða að mestu hlaðnir í heimahúsum eða á vinnustað. Rafvæðing bátaflotans mun kalla á frekari rafvæðingu í höfnum en í flestum höfnum er þegar selt rafmagn til skipa og þyrfti þá að aðlaga það kerfi að þörfum báta. Það er því verulegur kostir við þær leiðir sem skoðaðar eru hér að þær kalla ekki á verulega uppbyggingu innviða og geta því komist fljótt í framkvæmd.

Markmið sviðsmyndanna er að varpa ljósi á þá áhrifaþætti sem geta leitt til minni notkunar jarðefnaeldsneytis og þar með samsvarandi minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig er um að ræða þætti sem stjórnvöld geta haft áhrif á með lagasetningu og reglugerðum. Reynt hefur verið að velja saman forsendur í sviðsmyndunum þannig að hægt sé að nálgast sem mestar upplýsingar um niðurstöður einstakra aðgerða. 

Sviðsmyndirnar eru unnar af Orkustofnun að beiðni Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Ekki ber að líta á sviðsmyndir þessar sem fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda til að ná fram markmiðum í orku- og loftslagsmálum. Hér er fyrst og fremst verið að kanna áhrif einstakra mögulegra aðgerða til að fá betri skilning á leiðum til að mæta markmiðum stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum. 

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér:  OS-2016-07