Fréttir


Rýni á drögum skýrslu verndar- og orkunýtingaráætlunar

27.7.2016

Það er mat Orkustofnunar að drög að skýrslu verkefnisstjórnar séu ekki fullnægjandi og setji ráðuneyti og Alþingi í erfiða stöðu við framhald verksins. Greiningarvinna er ófullnægjandi, matið byggir á of þröngu sjónarhorni, skortur er á samræmi í einkunnagjöf milli áfanga og niðurstöður flokkunar eru ekki nægilega rökstuddar.

Þann 11. maí 2016 gaf verkefnisstjórn þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar út skýrslu undir heitinu Drög að lokaskýrslu með undirtitlinum til umsagnar 11. maí til 3. ágúst. Orkustofnun hefur nú rýnt skýrsluna og sent erindi ásamt fylgiskjali sem inniheldur rýni stofnunarinnar til verkefnisstjórnar. Helstu niðurstöður Orkustofnunar eru, að í lokaskýrslu verkefnisstjórnar þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur komið í ljós að forsendur flokkunar sem lýst er í skýrslunni byggja á veikum grunni og lýsa þröngri sýn verndunar.

Vinna verkefnisstjórnar uppfyllir ekki markmið laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun nema að litlu leyti. Gætt er óhóflega mikillar varfærni við flokkun virkjunarkosta í nýtingarflokk, virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk án þess að forsendur um skort á gögnum séu til staðar og í mörgum tilvikum eru atriði sem eðlilega væru tekin fyrir á stigi umhverfismats framkvæmda tilgreind sem ástæða fyrir því að virkjanir flokkast ekki í nýtingarflokk.

Forsendur fyrir einkunnagjöf þeirra tveggja faghópa sem flokkun verkefnisstjórnar byggir á eru ekki fyrir hendi og margvíslega grunnvinnu vantar til þess að hægt sé að bæta úr annmörkum þessara draga að lokaskýrslu fyrir endanlega útgáfu skýrslunnar. Það er því mat Orkustofnunar að drög að skýrslu verkefnisstjórnar séu ekki fullnægjandi og setji ráðuneyti og Alþingi í erfiða stöðu við framhald verksins. Veigamestu ástæðurnar fyrir þessari niðurstöðu eru eftirfarandi.

  1. Greiningarvinnan er ófullnægjandi. Mat faghópa á áhrifum virkjana er ekki rökstutt með fullnægjandi hætti og í mörgum tilvikum utan eðlilegra skynsemismarka.
  2. Mat á virkjunarkostum byggir á of þröngu sjónarhorni til að uppfylla skilyrði laga nr. 48/2011 og tekur ekki tillit til vinnu faghópa 3 og 4
  3. Skortur er á samræmi í einkunnagjöf milli áfanga 2 og 3, sem er andstætt gildandi starfsreglum verkefnisstjórnar
  4. Niðurstöður flokkunar eru í mörgum tilvikum handahófskenndar og ekki nægilega vel rökstuddar

Mikilvægt er að vinna við næsta áfanga verndar- og orkunýtingaráætlun byggi á traustari grunni en í þriðja áfanga og að allir virkjunarkostir sem lagðir verða fram af Orkustofnun verði teknir til faglegrar, alhliða skoðunar og að allar niðurstöður næstu verkefnisstjórnar verði ítarlegar og vel rökstuddar.

Tryggja verður að í framtíðinni verði öll markmið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun uppfyllt í umfjöllun verkefnisstjórna. Aðferðafræðin verður að taka á áhrifum virkjunarkosta á umhverfi, samfélag og efnahag og fjalla bæði um jákvæða og neikvæða þætti verndar og orkunýtingar. Forðast verður þrönga verndarstefnu, þar sem slíkt tekur ekki tillit til stórra og mikilvægra málaflokka s.s. hnattrænnar hlýnunar og súrnunar sjávar, sem er einhver mesta umhverfisvá sem um getur. Mikilvægt er að horfa til kerfisáhættu og þjóðaröryggis í orkumálum, möguleika til atvinnuuppbyggingar og orkuskipta fyrir næstu áratugi og taka þarf tillit til samkeppnissjónarmiða á raforkumarkaði.

Það er von Orkustofnunar að draga megi lærdóm af þeim ábendingum sem koma fram í þessari skýrslu, þannig að í næsta áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar verði tekið á öllum þeim þáttum sem markmið laganna ná yfir.

Það er einnig brýnt að í því ferli sem nú stendur yfir verði ekki teknar ákvarðanir um vernd á hæpnum forsendum. Möguleikar okkar til framleiðslu hreinnar orku eru eitt af fjöreggjum íslensks samfélags. Það er vandséð hvernig markmiðum um sjálfbæra þróun er mætt með því að svipta heilu landshlutana möguleika til vistvænnar og hagkvæmrar orkunýtingar til framtíðar.

Nánari upplýsingar er að finna í fylgiskjali með erindi stofnunarinnar: Rýni á drögum að skýrslu
verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar frá 11. maí 2016.

Nánari upplýsingar:

Erindi til verkefnisstjórnar 27. júlí 2016 vegna rýni á drögum að skýrslu verkefnisstjórnar

Rýni á drögum að skýrslu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar frá 11. maí 2016