Skammtímaleyfi veitt til vatnaveitinga úr Skaftá út á Eldhraun
Orkustofnun hefur í dag veitt bændum og hagsmunaaðilum í Landbroti og Meðallandi tvö leyfi til vatnaveitinga úr Skaftá út á Eldhraun. Annars vegar skammtímaleyfi til 15. ágúst n.k. til vatnsveitu úr Skaftá í Árkvíslar í landi Ár, með því að rjúfa varnargarð að hluta til að bregðast við bráðavanda sem stafar af lægstu grunnvatnsstöðu í Eldhrauni og hins vegar leyfi til eins ár til að veita vatni á sama stað við útfall Árkvíslar í þeim tilgangi að færa rennsli Árkvíslar í sama horf og var fyrir hlaup í Skaftá haustið 2015.
Orkustofnun tekur fram að um skammtímalausn og skammtímaleyfi sé að ræða til þess að bregðast við bráðavanda, óvenju lágri grunnvatnsstöðu í jarðlögum Eldhrauns eins og kemur fram í Fljótsbotni í Meðallandi og í lækjum í Landbroti, en þ.m.t. Grenlæk sem er á náttúruminjaskrá. Að mati Orkustofnunar er lífríki vatna í hættu auk þess sem brunnvatn bænda á svæðinu hefur takmarkast verulega og hefur t.d. aldrei verið lægra en þegar það hefur áður mælst lægst, sem var árið 1998.