Fréttir


Ísland framarlega í nýtingu endurnýjanlegrar orku til hitunar húsa

Nýting á jarðhita til hitunar húsa

26.4.2016

Ísland er með mikla sérstöðu að flestu leyti sé horft til annarra landa í heiminum, á sviði endurnýjanlegrar orku. Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegrar orku í kringum 95% sé litið til starfsemi hitaveitna í landinu á meðan t.d. nágrannalöndin Danmörk og Noregur eru með um 45% og 75%. Að sama skapi nýtur rúmlega 92% af íslensku þjóðinni góðs af hitaveitu samanborið við einungis 1,3% íbúa í Noregi. Það land sem stendur hvað næst Íslandi við að koma hitaveitu til íbúa þess, svo vitað sé, er Hvíta-Rússland en þar nær hitaveita til 70% íbúa landsins

Verð á orku til hitunar húsa 

Sé litið til verðs á orku frá hitaveitu til neytanda eru hitaveitur á Íslandi að bjóða upp á lægra verð en gengur og gerist í heiminum. Það er jafnframt merkilegt í ljósi þess að t.d. í sumum löndum í Austur-Evrópu er verið að niðurgreiða orkuverðið sem er ekki gert hérlendis. Gott er að taka samanburð á verðmuninum á milli Íslands og Japans þar sem verð í Japan er ríflega tífalt hærra. Ástæða þessa gífurlega verðmunar er í raun margþætt. Í Japan voru starfandi 139 hitaveitukerfi árið 2013 á meðan það voru 48 á Íslandi sem voru samt sem áður að selja 23% meira af orku. Auk þess var einungis 5% af seldu orkunni til nýtingar í íbúðarhúsnæði í Japan en á Íslandi var það 75% sem stuðlar að lægra orkuverði fyrir hinn almenna borgara. Það sem vegur þó hvað þyngst í þessum verðmuni er hve skammt á veg Japan er komið í allri þróun sinni á bakvið hitaveiturnar sínar og notkun á endurnýjanlegri orku.

Orkuverð og laun

Athyglisvert er að setja orkuverð í samhengi við raunveruleg laun fólks og sjá hversu þungbær orkukaup eru á milli landa Sé litið til Norðurlanda eru íslensk hjón, bæði í 100% vinnu, með tvö börn að borga hlutfallslega lægst af launum sínum í kaup á orku fyrir 100 fermetra húsnæðið sitt. Sambærileg fjölskylda í Noregi er að borga 21% meira hlutfallslega en sú íslenska borgar, í Svíþjóð 50% meira, Finnlandi 71% meira og í Danmörku 128% meira. Orkukaup fyrir fjölskyldu í Rúmeníu eru tífalt þungbærari en fyrir íslenska fjölskyldu. Spilar þar inn í að bæði orkuverð frá hitaveitu og raforkuverð er hærra í Rúmeníu en á Íslandi ásamt því að meðallaun þar í landi eru talsvert lægri.

Sjá Talnaefni Orkustofnunar: OS-2016-T006-01.