Fréttir


Raforkuhópur orkuspárnefndar hefur gefið út nýja spá um raforkunotkun hér á landi sem nær frá 2015 til 2050

17.3.2016

Raforkuhópur orkuspárnefndar hefur gefið út nýja spá um raforkunotkun hér á landi sem nær frá 2015 til 2050, en síðasta spá var gefin út árið 2010, að henni standa Landsnet, Orkustofnun, Norðurorka, Veitur, Rarik og Samorka. 

Raforkuspá 2015 - 2050

Samkvæmt þessari spá mun notkun forgangsorku sem afhent er frá dreifikerfum aukast um 15% fram til 2020 og um 100% alls næstu 36 árin. Árleg aukning notkunar er tæp 2% á ári en þó heldur meiri næstu ár og á árunum 2027-2035. Ef miðað er við heildarorku mun notkunin á veitusvæðum dreifiveitna aukast um 18% fram til 2020 og um 97% alls næstu 36 ár og árleg aukning notkunar er tæp 1,9%/ári. (Kafli 6 í skýrslunni).   

Áætluð notkun til lengri tíma litið er heldur meiri nú en í síðustu spá, sérstaklega notkun orkufreks iðnaðar (úttekt frá flutningskerfinu) enda er eins og í fyrri spám einungis tekið tillit til samninga sem gerðir hafa verið um slíka orkusölu þegar spáin er gerð.  Spá um almenna notkun hefur staðist vel á undanförnum árum en þó hefur notkunin reynst aðeins meiri en gert var ráð fyrir vegna meiri notkunar í almennum iðnaði en á móti er notkun heimila minni en búist var við.

Mynd I, Spá um heildar raforkuvinnslu yfir tímabilið, ásamt rauntölum áranna 1995-2014

Orkunotkun heimila

Lengi vel fór almenn heimilisnotkun utan rafhitunar vaxandi og náði hún hámarki árið 2009 er hún var 4,9 MWh/heimili að meðaltali. Síðan þá hefur notkunin minnkað jafnt og þétt og var komin í 4,5 MWh/heimili árið 2014 og hefur ekki verið jafn lítil í áratug. Helstu orsakir lækkunarinnar eru breytingar í lýsingu þar sem mun orkugrennri perur en glóperurnar eru komnar til sögunnar og heimilistæki hafa orðið sparneytnari. Á móti kemur að tækjum á heimilum hefur farið fjölgandi en flestar nýjar tækjategundir eru orkugrannar. Þessi þróun mun halda áfram og notkun á heimili ná lágmarki við um 4,0 MWh/heimili. Gert er ráð fyrir að fyrrnefndar breytingar í lýsingu fari einnig að skila sér í garðyrkju eftir nokkur ár og mun þá raforkunotkun í landbúnaði minnka.

Atvinnustarfsemi utan stóriðju

Í atvinnustarfsemi utan stóriðju hefur raforkunotkun vaxið hraðast í almennum iðnaði og frá 2009 til 2014 er aukningin 137 GWh eða 24%. Um helmingur af aukningunni er hjá fiskimjölsverksmiðjum og annar fiskiðnaður er með rúm 20% af aukningunni. Á næstu árum er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu notkunar í almennum iðnaði m.a. vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja.

Orkunotkun í þjónustu og samgöngum

Hægt hefur aftur á vexti raforkunotkunar í þjónustu á undanförnum árum. Á næstu áratugum er gert ráð fyrir miklum breytingum varðandi orkugjafa sem nýttir er í samgöngum og að raforka leiki þar stórt hlutverk. Í lok spátímabilsins er gert ráð fyrir að flestir nýir fólksbílar verði knúnir beint eða óbeint með raforku og að þessi breyting í stærri atvinnubifreiðum verði komin vel á veg, sjá nánar mynd 4.46.

Orkunotkun stóriðju

Orkunotkun stóriðju hefur aukist verulega á síðustu árum. Á árinu 1990 var hlutur notkunar hjá dreifiveitum með töpum og notkunar við virkjanir samtals um helmingur af raforkunotkuninni, á árinu 2014 er þetta hlutfall komið niður í 21% og mun síðan aukast aftur og verða um 31% í lok spátímabilsins.

Einungis er miðað við núverandi samninga um orkufrekan iðnað. Uppbygging slíks iðnaðar er háð ákvörðunum stjórnvalda, markaðsaðstæðum fyrir afurðir fyrirtækjanna, samkeppnishæfni raforkuverðs og fleiru. Hvenær ný orkufrek fyrirtæki kunna að koma til sögunnar er nánast ómögulegt að segja til um nú. Tilkoma nýrra orkufrekra fyrirtækja getur valdið risastökki í raforkunotkun eins og glöggt má sjá á mynd I, en t.d. þegar Fjarðaál hóf starfsemi jókst úttekt frá flutningskerfinu um tæpar 5 TWh á tveimur árum, og því þjónar engum tilgangi að taka óvissan orkufrekan iðnað með í spá sem þessari. Á næstu árum bætist við notkun hjá United Silicon og PCC BakkiSilicon með samtals um 0,7 TWh á ári.

Önnur atriði

Síðasta raforkuspá sem kom út á árinu 2010 hefur reynst vel. Notkunin óx nokkuð hratt samhliða miklum hagvexti fram til 2008 en síðan þá hefur hún vaxið mun hægar. Árið 2014 munar um 41 GWh á almennu notkuninni miðað við spána frá 2010 (óleiðrétt almenn notkun að viðbættum flutnings- og dreifitöpum, sjá mynd III. Spár um einstaka landshluta hafa einnig reynst vel enda hefur Orkuspárnefnd tekið tillit til byggðaþróunar síðustu ára við gerð þeirra. Einnig er athyglisvert að sjá hve vel spáin frá 1985 hefur staðist fyrir landið í heild en nú eru liðin þrjátíu ár af þeirri spá og var hún einungis um 50 GWh undir raunnotkun almenna markaðarins árið 2014. Þessi spá hefur þó verið yfir notkuninni mest allt tímabilið og er það fyrst á árinu 2004 sem hún fer undir notkunina. Frekari samanburð á núverandi spá og eldri spám nefndarinnar er að finna í kafla 8.

Samkeppnisstaða raforku

Auk þess sem raforkan á í samkeppni hér innanlands má segja að hún eigi einnig í samkeppni við raforku erlendis. Kaup á raforku eru einn af mörgum kostnaðarliðum við rekstur fyrirtækja og ef hún er dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum hefur það áhrif á samkeppnisstöðu þeirra. Raforkuverð hér á landi er með því lægsta í Evrópu hvort sem er litið er til heimila eða iðnaðar (sbr. mynd 4.2 og mynd 4.3 í skýrslu).  Skattar á raforku eru mismunandi eftir ríkjum. Í raforkuverði til heimila er hlutur skatta og gjalda lægstur í Bretlandi og Möltu með 5% meðan það er um 52% í Þýskalandi og 57% í Danmörku. Ástæða fyrir háu orkuverði til almennrar notkunar í Danmörku og Þýskalandi er skattlagning og önnur gjöld. Sjá nánar kafla 4.2.2.

Alþjóðlegur samanburður

Á síðustu áratugum hefur raforkunotkun hér á landi aukist stöðugt og er notkun á mann nú sú mesta sem þekkist í heiminum sbr.  mynd 2.13 í skýrslu sem sýnir notkun OECD þjóðanna. Raforkunotkun á íbúa eða sem hlutfall af landframleiðslu hefur aukist á síðustu árum vegna aukinnar raforkunotkunar stórnotenda, en Fjarðarál hóf starfsemi árið 2007 og Becromal árið 2009, einnig hefur notkun hjá Norðuráli aukist undanfarin ár. Helsta ástæða fyrir mikilli raforkunotkun hér á landi er hátt hlutfall orkufreks iðnaðar. Veðurfar hefur einnig mikið að segja en hitun er snar þáttur í almennu raforkunotkuninni hér á landi eða um 1/6. Svipuð skilyrði, hvað þetta tvennt varðar, eru einnig hjá þeim þjóðum sem eru með svipaða notkun á íbúa og við. Ein önnur skýring á mikilli raforkunotkun hér á landi er að landsframleiðsla er hlutfallslega mikil og lífskjör góð. Þetta veldur mikilli orkunotkun atvinnulífs og heimila.  

Flestar OECD þjóðirnar nota um 0,2 til 0,4 kWh á bandaríkjadal í landsframleiðslu og er þá miðað við verðgildi dalsins árið 2005 (ekki PPP) þegar notkun á Íslandi er 1,6 kWh á bandaríkjadal í landsframleiðslu. Frá árinu 2007 til 2012 hefur raforkunotkun hjá flestu löndum í mynd 2.13  farið minnkandi, t.d. hefur meðaltals raforkunotkun á íbúa farið úr 8,5 MWh/íbúa á árinu 2007 í 8,1 MWh/íbúa árið 2012 og nálgast notkun á árinu 2001 sem þá var 8,0 MWh/íbúa. Hjá þeim þjóðum þar sem raforkunotkun á íbúa er mest er notkun í hlutfalli við landsframleiðslu einnig mikil. Mikill orkufrekur iðnaður er í mörgum þessum löndum svo sem í Noregi, Kanada og hér á landi auk þess sem hitunarþörf húsa er mikil. Sjá nánar kafla 2.5.

Raforkuhópur nefndarinnar hefur unnið þessa spá en í honum eiga sæti fulltrúar dreifiveitnanna og Landsnets sem nú er með formennsku í hópnum. Eftirtaldir eiga því sæti í hópnum sem séð hefur um þessa vinnu en hópurinn var endurskipaður við upphaf árs 2015.

Landsnet: Sverrir Jan Norðfjörð, formaður

Norðurorka: Baldur Dýrfjörð

Orkustofnun: Rán Jónsdóttir

Orkuveita Reykjavíkur: Rúnar Svavar Svavarsson

RARIK: Pétur Þórðarson

Samorka: Sigurður Ágústsson

Starfsmaður raforkuhóps: Jón Vilhjálmsson, EFLA verkfræðistofa

Ingvar Baldursson og Jónas Hlynur Hallgrímsson hjá EFLU verkfræðistofu hafa setið fundi hópsins.

Tveir fulltrúar hafa horfið úr hópnum á árinu 2015 og það eru Magnús Júlíusson fulltrúi Orkustofnunar og Ásgeir Sigtryggsson fulltrúi Landsnets.

Nánari upplýsingar um raforkuspá veitir Rán Jónsdóttir hjá Orkustofnun, sími: 569-6000, ran.jonsdottir@os.is  og Sverrir Jan Norðfjörð formaður nefndarinnar hjá Landsneti sími 563 9300,  sverrirjan@landsnet.is  Raforkuspána má nálgast með því  að smella hér  sem og á  sem og á www.orkuspa.is en þar er einnig skýrsla um almennar forsendur orkuspáa sem raforkuspáin byggir á, sjá almennar forsendur hér.

Nánar verður fjallað um raforkuspána á ársfundi Orkustofnunar sem haldinn verður 1. apríl n.k. í Víkingasal Hótel Natura.  Skráning á ársfundin er á www.os.is