Fréttir


Jarðhiti nemur 68% af frumorkunotkun Íslands og 2.680 milljarðar króna hafa sparast með því að nýta jarðhita til húshitunar

8.3.2016

Orkustofnun hefur gefið út tölur yfir frumorkunotkun og varmanotkun jarðhita á Íslandi fyrir árið 2014. Frumorkunotkun jarðhita nam 172,7 PJ og varmanotkun með jarðhita var 27,1 PJ. Einnig eru gefnar út tölur sem meta efnahagslegan ávinning Íslands af nýtingu jarðhita í stað olíu frá 1914 til 2014. Ávinningurinn árið 2014 var 89 milljarðar og uppsafnaður, núvirtur sparnaður frá 1914-2014 er metinn um 2.680 milljarðar króna.

Frumorku- og varmanotkun jarðhita

Frumorkunotkun jarðhita nam 172,7 PJ eða 68% af heildarfrumorkunotkun sem nam 253,6 PJ. Í talnaefninu sem gefið hefur verið út má sjá frumorkunotkun flokkaða eftir varmasölufyrirtækjum og vinnslusvæðum. Orka náttúrunnar er þar stærsti aðilinn með um 51,9% hlutdeild. Varmanotkun jarðhita nam 96% af heildarvarmanotkun Íslands árið 2014, eða 27,0 PJ af heildarvarmanotkuninni sem var 28,1 PJ. Þegar notkunin er skoðuð eftir flokkunarkerfi Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar IEA, þá sést að heimili notuðu 46%, 41%  var nýtt í þjónustu, 7% í fiskeldi, 4% í iðnað og 2% í landbúnað. Frekari flokkun eftir varmasölufyrirtækjum og veitusvæðum má sjá í talnaefninu.

Efnahagslegur ávinningur af jarðhita

Ljóst er að þjóðfélagið hefur hagnast á því að nýta innlendar jarðhitaauðlindir til húshitunar í stað innfluttrar olíu, og hefur Orkustofnun lagt mat á þennan efnahagslegan ávinning. Samkvæmt því nam sparnaðurinn 89 milljörðum króna árið 2014, sem er mismunurinn á tekjum hitaveitufyrirtækja af húshitun og því sem samsvarandi olíukynding myndi kosta.

Áætlaður ávinningur nam 4,5% af vergri landsframleiðslu ársins 2014 og um 272 þúsund krónum á hvern íbúa landsins. Einnig hefur sögulegur ávinningur verið áætlaður, allt aftur til ársins 1914 þegar nýting jarðhita til húshitunar var að stíga sín fyrstu skref. Núvirtur, uppsafnaður sparnaður fyrir tímabilið 1914-2014, með 2% ávöxtun, nemur um 2.680 milljörðum króna.  

Nálgast má gögn Orkustofnunar inn á Talnaefnissíðu stofnunarinnar hér.  

Sjá einnig einstakar töflur á pdf formi :

OS-2015-T009  Efnahagslegur ávinningur af nýtingu jarðvarma í stað olíu til húshituna

OS-2015-T010  Frumorkunotkun jarðhita á Íslandi 2014 eftir vinnslusvæðum

OS-2015-T011  Varmanotkun á Íslandi 2014 eftir veitusvæðum