Fréttir


Fyrstu skrefin í átt að raforkuflutningskerfi í Norður-Atlantshafi

26.1.2016

Iðnaðar og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, kynnir  í dag nýja  skýrslu (North Atlantic Energy Network (NAEN)) um raforkuflutningskerfi í Norður-Atlantshafi á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsø í Noregi

Skýrslan gerir grein fyrir  möguleikum á því að tengja saman einangruð raforkukerfi og sumar af bestu uppsprettum endurnýjanlegrar orku á heimskautasvæðinu, Norðurlöndunum og í norðurhluta Evrópu - við stóra raforkumarkaði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu. Verkefnið var samstarf fulltrúa frá Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Hjaltlandseyjum og hefur staðið yfir síðan í febrúar 2015. Verkefnið hefur aukið upplýsingamiðlun og þekkingu þátttökuaðila, stofnana og viðkomandi svæða á viðfangsefninu.

Aðgangur og nýting endurnýjanlegrar orku er lykil atriði í baráttunni við hlýnun andrúmsloftsins og ávinningur NAEN-landanna  gæti verið umtalsverður í formi útflutnings á raforku og aukinni þekkingu á því sviði. Þessu til viðbótar, gæti vettvangur fyrir þróun tækifæra í framtíð og samvinnu á þessu sviði,  gagnast allri Evrópu.

100 MW sæstrengur milli Íslands og Færeyja er tæknilega mögulegur en er að líkindum ekki efnahagslega hagkvæmur.  Færeyjar og Hjaltlandseyjar eru með sambærileg veðurskilyrði fyrir nýtingu vinds á landi eins þær væru staðsettar á hafi úti og stórir vindorkugarðar á Færeyjum og Hjaltlandseyjum þarfnast öflugra tenginga við önnur lönd. Hægt væri að leggja öflugan streng milli Íslands og Skotlands sem gæti farið um Færeyjar og Hjaltlandseyjar og gæti mögulega flutt orku frá Íslandi til Hjaltlandseyja, Færeyja og Skotlands og áfram til Evrópu. Samlegðaráhrif gætu orðið þau að raforka frá vatnsafli yrði flutt frá Íslandi á sumrin og vindorka frá Færeyjum og Hjaltlandseyjum á veturna.

Reiknað er með að verkefni um lagningu 600 MW sæstrengs milli Hjaltlandseyja og Bretlands (Scottish Hydro Electric Transmission's (SHE-T)) verði lagt fyrir raforkueftirlitið í Bretlandi (Ofgem) árið 2016. Sæstrengur milli Hjaltlandseyja og Bretlands hefur verið í þróun í meira en áratug og er markmiðið að virkja möguleika Hjaltlandseyja til að nýta vindorku. NAEN verkefnið hefur dregið fram í dagsljósið möguleika Íslands og Færeyja til útflutnings endurnýjanlegrar raforku til Bretlands og Noregs og tengjast þannig stærra raforkuflutningskerfi í Evrópu. Verið er að kanna  lagningu sæstrengs  á milli Íslands, Bretlands og Færeyja og auka þannig orkuöryggi með endurnýjanlegri orku frá Íslandi. 

Grænland býr yfir miklum möguleikum í vatnsafli og sólarorku sem ekki eru að fullu kannaðir. Leggja þarf í frekari vinnu við að kortleggja þessa möguleika, samhliða uppbyggingu á innviðum. Þar sem Noregur vinnur þegar að því að leggja háspennu-sæstreng til Bretlands sem á að vera kominn í gagnið árið 2021, dregur það úr þörf fyrir nýjar tengingar frá Noregi í nánustu framtíð.

Skýrslan dregur fram að möguleikar á frekari nýtingu endurnýjanlegrar orku, þar með talið vatnsafli, vindi, jarðvarma og sólarorku, eru mjög miklir í löndunum við Norður-Atlantshaf. Frekari rannsókna er þörf til að kortleggja heildarmöguleika á nýtingu endurnýjanlegrar orku á þessu stóra svæði.

Skýrslan í heild er aðgengileg hér.


Frekari upplýsingar veitir:

Erla Björk Þorgeirsdóttir,

Orkustofnun

Sími: 569-6000

erla.bjork.thorgeirsdottir@os.is