Fréttir


Ráðið í störf verkefnisstjóra og sérfræðings

20.1.2016

Baldur Pétursson hefur verið ráðinn í starf verkefnisstjóra fjölþjóðlegra verkefna og kynningarmála og María Guðmundsdóttir hefur verið ráðin í starf sérfræðings í hagfræði jarðhitanýtingar og erlendum verkefnum hjá Orkustofnun.

Baldur er viðskiptafræðingur frá HÍ og MSAS í alþjóðaviðskiptum frá Boston University í Bandaríkjunum, auk prófs Fjármálaeftirlitsins sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í stærri fjármálafyrirtækjum. Hann hefur mikla reynslu af stjórnsýslustörfum og útgáfu- og kynningarmálum, m.a. sem deildarstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, stjórnarmaður í Íslandsbanka (2010-12),  og alþjóðlega reynslu sem sendiráðunautur í Brussel og  stjórnarmaður og síðar aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu í London.

María er BS í jarðeðlisfræði frá HÍ og MS í orkuverkfræði með áherslu á auðlindahagfræði og orkukerfi frá ETH í Zürich í Sviss. Hún hefur starfað við jarðhitarannsóknir hjá Íslenskum orkurannsóknum og hjá Orkustofnun við verkefni sem tengjast hagfræði jarðhitanýtingar svo og við erlend verkefni kostuð af Uppbyggingarsjóði EES.

Bæði störfin voru auglýst laus til umsóknar í desember sl. og sóttu 12 um fyrra starfið og 5 um það síðara.