Framlag Íslands liðna öld með endurnýjanlegri orku í stað olíu um 350 milljónir tonna af koldíoxíði og gæti náð 50 milljónir tonna árlega með vistvænni nýtingarstefnu
Stefnumörkun íslenskra stjórnvalda á síðustu öld hefur skilað mannkyni um 350 milljón tonna sparnaði í losun koldíoxíðs. Með nýtingarstefnu gæti Ísland sparað sem nemur árlegri losun Frakklands sjötta hvert ár í framtíðinni þar sem um 66 milljónir manna búa.
Á síðasta ári nam árlegur sparnaður með endurnýjanlegri orku í stað olíu um 18 milljónum tonna, þar af 58% með virkjun vatnsafls, 24% með hitaveitum og 18% með jarðvarmavirkjunum. Til samanburðar nam öll losun af mannavöldum á Íslandi 3,5 milljónum tonna af koldíoxíði. Losun hefði því verið um 21,5 milljón tonn ef Ísland myndi nota olíu til þessa og jafnvel enn meiri ef kol væru notuð.

Uppsafnaður sparnaður nemur nálægt 350 milljónum tonna frá árinu 1914 til ársins 2014, þar af 59% með vatnsorku og 41% með hitaveitum og jarðvarmavirkjunum eins og sést á myndinni.
Orkustofnun hefur lagt mat á yfir 80 virkjunarkosti fyrir 3. áfanga rammaáætlunar. Ef íslensk stjórnvöld taka þá ákvörðun að alla orkukosti megi nýta getur Ísland þrefaldað sparnaðinn og náð um 50 milljón tonna sparnaði með því að nýta innlenda og vistvæna orku í stað jarðefnaeldsneytis.
Til samanburðar losa Frakkar um 320 milljónir tonna árlega í andrúmsloftið. Ísland gæti þá sparað fyrir árlegri losun Frakklands sjötta hvert ár. Þess má geta að um 66 milljónir manna búa í Frakklandi. Með hnattrænum lausnum og vistvænni nýtingarstefnu er ávinningur sem þessi mögulegur þar sem orkufrek framleiðsluferli eru heldur sett þar sem vistvæna orku er að finna í stað þess að nýta t.d. kol. Með þessu tekur Orkustofnun fram að slíkur ávinningur er ekki án fórna og umhverfisáhrifa. Með ríkum kröfum um mótvægisaðgerðir og umhverfisverndun getur slík nýtingarstefna á Íslandi engu að síður skilað miklum árangri til að draga úr losun koldíoxíðs fyrir mannkynið í heild sinni. Það má því velta því fyrir sér hvort verndarstefna vistvænna orkukosta sé í takt við umhverfisstefnu mannkyns á 21. öldinni.
Þó slíkir útreikningar og forsendur teljast fjarlæg þá er það engu að síður veruleiki margra landa að kol og olía eru aðalorkugjafarnir. Árið 1953 samþykkti Alþingi lög sem heimiluðu ríkinu að fjármagna allt að 80% af heildarfjárfestingarkostnaði hitaveitna utan höfuðborgarsvæðisins eftir góðan árangur Reykjavíkurborgar.
Á forsíðu Morgunblaðsins árið 1938 má sjá hve stóran þátt hitaveituvæðing höfuðborgarsvæðisins skipaði í borgarstjórnarkosningum þess árs. Snérist umræðan þar ekki síður um loftgæði en lækkun húshitunarkostnaðar eins og sjá má á forsíðunni. Veruleiki íslendinga hefur breyst til hins betra frá tímum kolanýtingar til húshitunar og virkar sá veruleiki fjarlægur okkur í dag vegna þess árangurs sem náðst hefur og fyrri tímar kolamengunar í Reykjavík löngu liðnir.
Nálgast má gögn Orkustofnunar inn á Talnaefnissíðu stofnunarinnar hér (OS-2015-T008-01).
Prentvæna útgáfu af töflunni OS-2015-T008-01 má finna hér.