Fréttir


Mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í Indónesíu

10.11.2015

Líkt og Ísland býr Indónesía yfir ríkulegum sjálfbærum orkuauðlindum og eru þeir með mikil áform um virkjun bæði jarðvarma og vatnsafls á næstu árum og áratugum. Sendinefnd frá orku- og auðlindaráðuneyti Indónesíu var í heimsókn á  Íslandi 2. til 3. nóvember sl. í boði iðnaðar- og viðskiptaráðherra og fundaði hún með fulltrúum ráðuneytisins þar sem farið var sérstaklega yfir reynslu og þekkingu Íslendinga á sviði jarðvarma og hvernig auka mætti samstarf þjóðanna en mikil þörf er á þekkingu og tækni.

Í gildi er samstarfsyfirlýsing á milli landanna frá árinu 2007, um orku- og auðlindamál. Á fundinum kom fram vilji beggja ráðuneytanna  til að styðja við enn frekari samstarf á milli Íslands og Indónesíu á sviði jarðvarmanýtinga á grundvelli þeirrar yfirlýsingar - (sjá: http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Rafraen_afgreidsla/Indonesia_MoU_2007.pdf )

Auk fundar í ráðuneytinu, fundaði sendinefndin með Orkustofnun og  utanríkisráðuneytinu, auk þess sem sérstakur fjárfestingafundur var haldinn fyrir fyrirtæki á vegum jarðvarmaklasans og annarra fyrirtækja sem áhuga höfðu á samstarfi.

Jafnframt átti sendinefndin fund með sérfræðingum frá Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem Indónesar lýstu yfir áhuga að senda áfram nema í skólann, en fram til þessa hafa 29 Indónesar verið þar við nám.

Sendinefndin heimsótti orkuver HS Orku í Svartsengi, þar sem skoðuð var m.a. sérstök túrbína sem kölluð er kolkrabbinn. Túrbínan, sem framleidd var í Japan eftir sérstökum kröfum frá HS Orku, til að auka nýtingu, er ein  sinnar tegundar í heiminum.

Albert Albertson hjá HS Orku, lýsti starfseminni fyrir gestunum 

Í máli Indónesa kom fram að reiknað væri með að orkuþörf muni aukast um 7-8% á ári næstu ár, þar sem gert væri ráð fyrir 5-6% hagvexti og fólksfjölgun um 1,2%. Einnig hefðu stjórnvöld nýlega mótað stefnu til að auka verulega hlut endurnýjanlegrar orku í orkuvinnslu landsins frá 9,8% árið 2015 í 23% árið 2025.

Það er því mikil uppbygging framundan í Indónesíu á sviði endurnýjanlegrar orku, ekki síst á sviði jarðvarma, þar sem gert er ráð fyrir að auka orkuframleðslu frá 1.440 MW árið 2015 í 4.276 MW árið 2020 sem er tæp 200% aukning næstu 5 ár eða sem nemur 570 MW á ári. Til samanburðar má geta þess að orkuframleiðsla Kárahnjúkavirkjunar er um 690 MW, þannig að árlega er áætlun að bæta við jarðvarmavirkjunum sem nema tæplega stærð Kárahnjúkavirkjunar.

Miklir möguleikar eru í uppbyggingu jarðvarma í Indónesíu 

Einnig er gert ráð fyrir að auka orkuvinnslu á sviði vatnsafls og því einnig möguleikar á samstarfi á því sviði á milli fyrirtækja á Íslandi og Indónesíu.  

Á næstunni mun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinna frekar að þróun þessa samstarfs í samstarfi við  innlenda aðila og ráðuneyti orku- og auðlindamála í Indónesíu.

Kynningu indónesísku sendinefndarinnar má nálgast hér.

Nánari upplýsingar gefur Baldur Pétursson, s. 569 6000.