Reglur um losun í jörðu til umsagna
Orkustofnun hefur unnið að gerð reglna sem eru til umsagna almennings til 20. nóvember nk. um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar á vökva í jörðu.
Í kjölfarið á jarðskjálftahrinu í tengslum við losun affallsvökva frá Hellisheiðarvirkjun árið 2011 hófst hjá stjórnvöldum og orkufyrirtækjum greining á orsökum, umfangi og afleiðingum losunar vökva í jörðu með tilliti til örvunar jarðskjálfta. Í framhaldi af þeirri vinnu hefur Orkustofnun unnið að gerð reglna og viðmiðana um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar á vökva í jörðu um borholur.
Regludrögin ásamt leiðbeiningum er að finna á heimasíðu Orkustofnunar. Í því skyni að upplýsa frekar um málið og auðvelda skilning á þeirri hugsun sem býr á bak við reglurnar birtir Orkustofnun jafnframt á heimasíðu sinni ítarefni og margvíslegar upplýsingar um losun vökva í jörðu og áhrif losunar á jarðskjálftavirkni, um aðdraganda þess að ráðist var í gerð reglnanna og um stjórnsýslu vegna nýtingar jarðhita.
Þeir sem hafa athugasemdir við drögin eru beðnir um að senda stofnuninni athugasemdir sínar til Orkustofnunar fyrir 20. nóvember 2015 á netfangið os@os.is.
Orkustofnun mun svara öllum þeim sem gefa umsagnir með afstöðu stofnunarinnar við athugasemdum þeirra ef netfang eða heimilisfang viðkomandi kemur fram í póstinum.