Fréttir


Orkustofnun veitir leyfi til tilraunatöku á kalkþörungaseti af hafsbotni í Ísafjarðardjúpi

2.11.2015

Orkustofnun veitir Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. leyfi til tilraunatöku á kalkþörungaseti af hafsbotni austan Æðeyjar og út af Kaldalóni í Ísafjarðardjúpi. Með tilraunatökunni er fyrirhugað að ljúka þeim rannsóknum sem fyrirtækið hefur staðið fyrir í Önundarfirði og Ísafjarðardjúpi, að meðtöldum Jökulfjörðum, frá árinu 2011.

Í samræmi við lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, hefur Orkustofnun þann 30. október 2015, veitt Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. leyfi til tilraunatöku með sanddæluskipi á samtals 600 rúmmetrum af kalkþörungaseti af hafsbotni, eða á 300 rúmmetrum austan Æðeyjar og 300 rúmmetrum út af Kaldalóni í Ísafjarðardjúpi. Með ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 7. október 2015, liggur fyrir að umbeðin tilraunataka af hafsbotni í Ísafjarðardjúpi sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu kemur fram að tilraunatakan muni raska kalkþörungum, en að umfang rasksins verði óverulegt. Tilraunatakan mun fara fram á svæði sem nýtur verndar samkvæmt alþjóðlegum samningi, þ.e. OSPAR samningnum um verndun NA-Atlantshafsins. Tilraunatakan mun fara fram á mjög afmörkuðum svæðum, en austan Æðeyjar verður dælt grunnt á tæplega 1.100 m langri línu, og út af Kaldalóni verður dælt grunnt á rúmlega 800 langri línu. Mörk framangreindra svæða til tilraunatöku miðast við 10 m til beggja hliða út frá dælingarlínum, því vegna strauma og vinda getur orðið erfitt að halda tilraunatökunni á umbeðnum línum. Tekin verða a.m.k. 24 sýni af kalkþörungasetinu, sem verða kornastærðargreind og efnagreind, og að auki verður gerð skýrsla um hvernig gengur að dæla efninu á mismunandi stöðum. 
Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar.Leyfið, ásamt fylgibréfi og umsögnum má sjá hér.