Fréttir


Héraðsdómur staðfestir málsmeðferð Orkustofnunar vegna Suðurnesjalínu 2

30.10.2015

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 21. október sl. var leyfisveiting Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2 staðfest af dómnum. Um er að ræða 220 kV háspennulínu sem Landsnet hyggst reka, til að byrja með á 132 kV spennu, milli Hamraness og Rauðamels.

 Línan er 32,4 km löng loftlína. Töldu stefnendur málsins, landeigendur á Vatnsleysuströnd, að brotið hafi verið með ýmsum hætti gegn réttindum þeirra og ákvæðum stjórnsýslulaga við málsmeðferð Orkustofnunar og að niðurstaða Orkustofnunar um leyfisveitinguna fengi ekki staðist að efni til. Þá höfðu Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands aðkomu að málinu, en samtökin höfðu einnig gert athugasemdir við málsmeðferð Orkustofnunar.  Málsmeðferð Orkustofnunar byggði á ákvæðum raforkulaga og gætt var að meginreglum stjórnsýsluréttarins áður en ákvörðun var tekin. Það var niðurstaða dómsins að um lögmæta ákvörðun hafi verið að ræða hjá Orkustofnun. 


Dóminn í heild má sjá hér.