Orkustofnun veitir leyfi til töku malar og sands af hafsbotni í Reyðarfirði
Í samræmi við lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, hefur Orkustofnun þann 20. október 2015, veitt Hafnarsjóði Fjarðabyggðar leyfi til töku allt að 46.000 rúmmetra af möl og sandi á 48.200 fermetra svæði á hafsbotni út af leirum í botni Reyðarfjarðar. Með ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 20. mars 2015, liggur fyrir að umbeðin efnistaka af hafsbotni í Reyðarfirði sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Orkustofnun fellst að stærstum hluta á umbeðna efnistöku af hafsbotni í Reyðarfirði. Norðurmörk efnistökusvæðis voru aðeins innan við netlög, og því þurfti að minnka efnistökusvæðið úr umbeðnum 49.500 fermetrum í 48.200 fermetra. Þar sem umfang efnistökunnar hefur verið minnkað frá upphaflegum áætlunum, telur Orkustofnun ekki þörf á að minnka efnistökusvæðið frekar, en beinir þeim eindregnu tilmælum til Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar að raska sem minnstum botnfleti innan efnistökusvæðis, og hefja efnistökuna nyrst á svæðinu. Orkustofnun hefur í samráði við Fiskistofu ákveðið að efnistaka fari ekki fram á tímabilinu 1. apríl til 15. ágúst ár hvert.
Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, í samræmi við lög nr. 44/1999, auk Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrustofu Austurlands og Samgöngustofu.
Leyfið, ásamt fylgibréfi og umsögnum má sjá hér.