Fréttir


Ferðastyrkur á vegum EES sjóðsins til Rúmeníu á orkuráðstefnu

5.10.2015

Á vegum Rondine orkuáætlunarinnar, sem styrkt er af Uppbyggingarsjóði EES (EEA Grants), er nú hægt að fá ferðastyrk til Rúmeníu á RenExpo orkuráðstefnuna, sem haldin verður í Búkarest þann 18.-20. nóvember, til að styrkja tvíhliða tengsl landanna sérstaklega á sviði vatnsafls og jarðhita.

Gert er ráð fyrir um 2200 gestum, þar af 110 sýningaraðilum og 600 ráðstefnugestum á sviði orkumála með áherslu á orkunýtni og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Áhugasamir geta kynnt sér nánari upplýsingar um ráðstefnuna en verið er að skipuleggja hliðarviðburð þann 18. nóvember sem snýr að Rondine orkuáætluninni og verður áhugasömum sendar upplýsingar um það. Ekki er gert ráð fyrir möguleika á kynningum frá öllum þátttakendum en líklega verða þau verkefni sem hafa hlotið styrk úr áætluninni kynnt á hliðarviðburðinum.

Í boði eru tíu ferðastyrkir og miðað er við 1-2 frá hverjum aðila. Ríkisstofnunin AFM, mun sjálf bera ábyrgð á að greiða flugfargjald og hótelgistingu þó umsækjendur geti haft áhrif á ferðatilhögun. Hugsanlega verður einnig hægt að greiða fyrir annan kostnað ef nauðsyn krefur.

Áhugasamir vinsamlegast sendið umsókn í tölvupósti á os@os.is fyrir 9. október 2015 með fyrirsögninni: Beiðni um ferðastyrk til Rúmeníu. Þar skal eftirfarandi koma fram:

1) Nafn og kennitala umsækjanda, staða hjá vinnuveitanda ( á íslensku og ensku) og heimilisfang.

2) Ferðaáætlun, þ.e.a.s. brottför og koma ásamt ósk um ferðatilhögun.

3) Tilgangur ferðarinnar.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um orkuáætlunina og ráðstefnuna. Um aðkomu Orkustofnunar að áætluninni má sjá umfjöllun í ársskýrslu stofnunarinnar 2014 á blaðsíðu 10.