Fréttir


Umfjöllun Fréttablaðsins um kærumál gegn Íslandi vegna innleiðingar raforkutilskipunar

25.9.2015

Í dag birtist frétt í Fréttablaðinu á blaðsíðu 10 þar sem fram kemur að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi komist að þeirri niðurstöðu þann 23. september sl. í kærumáli gegn Íslandi að Ísland hafi brotið gegn raforkutilskipun frá árinu 2003. Samkvæmt fréttinni fólst brot Íslands meðal annars í því að Orkustofnun hafi ekki gert grein fyrir lögbundnu raforkueftirliti sínu í ársskýrslum stofnunarinnar. 

Að mati Orkustofnunar er fréttin misvísandi og telur því rétt að benda á að ESA hefur ekki komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi brotið gegn samningsskuldbindingum sínum samkvæmt EES samningnum vegna innleiðingar á raforkutilskipun 2003/54/EB. Þvert á móti tilkynnti ESA kærendum, þann 23. september sl., að stofnunin teldi ekki ástæðu til þess að rannsaka málið frekar og hyggðist því ljúka málinu án frekari aðgerða.