Fréttir


Orkustofnun vinnur til verðlauna

22.9.2015

Orkustofnun kynnti Ísland sem frumkvöðul á sviði endurnýjanlegrar orku á ráðstefnunni SET PLAN í Lúxemborg dagana 21-22. september. Staða Íslands í orkumálum vakti athygli en veggspjald stofnunarinnar var kosið besta veggspjald ráðstefnunnar árið 2015. 

Í kynningarefninu kemur meðal annars fram að 99% húsa á Íslandi séu hituð með endurnýjanlegri orku og að öll raforka landsins sé framleidd með endurnýjanlegri orku bæði vatnsorku 71% og jarðvarma 28,9%.  Þá er einnig fjallað um Ísland í samanburði við aðrar þjóðir en hlutur endurnýjanlegrar orku af frumorkunotkun á Íslandi er verulegur í samanburðinum eða 85%. Markmið Evrópusambandsins í orkumálum er að ná hlut endurnýjanlegrar orku í 20% fyrir árið 2020. 

Þá vekur það jafnan athygli að vegna jarðhitans þá eru Íslendingar að spara um 7% af vergri landsframleiðslu á hverju ári sé tekið mið af því að notuð væri olía í stað jarðhita til húshitunar. Þetta jafngildir um 400.000 ÍSK á íbúa á hverju ári.

Þetta er áttunda árið í röð sem SET PLAN ráðstefnan er haldin en áhersla ráðstefnunnar í ár var evrópsk orkustefna, rannsóknir og nýsköpun. Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri tók þátt í ráðstefnunni ásamt öðrum sérfræðingum í orkumálum víðsvegar að úr Evrópu.   

Hér má skoða veggspjaldið sem kynnt var á ráðstefnunni.

Ráðstefnusíðan