Fréttir


Skýrsla um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar

21.8.2015

Orkustofnun hefur skilað til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar skýrslu um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar. Skýrslan er 47 blaðsíður og fylgja henni 92 viðaukar þar sem meðal annars 81 virkjunarkosti er lýst.

Skýrsla þessi er unnin í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011, sem tóku að fullu gildi 14. janúar 2013 en áður höfðu greinar 1.-3. verið í gildi frá 20. maí 2011. Markmið laganna er að tryggja að nýting landsvæða, þar sem er að finna virkjunarkosti, byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati, þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þessi áætlun hefur að jafnaði verið kölluð rammaáætlun og er þeirri venju viðhaldið í þessari skýrslu.

Þriðji áfangi rammaáætlunar er fyrsti áfanginn sem unninn er samkvæmt gildandi lögum og reglugerð, af þeim ástæðum gilda aðrar forsendur fyrir flokkun virkjunarkosta en voru fyrir hendi í tveimur fyrri áföngum. Fyrri áfangar voru unnir samkvæmt fyrirmælum ráðherra og náðu í mörgum tilfellum langt inn í ferli umhverfismats framkvæmda. Núverandi löggjöf er á grunni umhverfismats áætlana.

Litið er til þess að verkefnisstjórnin geti fjallað um sem flest svæði þar sem orkunýtingarmöguleikar eru fyrir hendi, til þess að verkefnisstjórnin hafi sem mestan sveigjanleika í sinni áætlanagerð. Orkustofnun tekur hins vegar á þessu stigi málsins ekki afstöðu til þess hver geti orðið endanleg niðurstaða verkefnisstjórnar um einstaka orkunýtingarmöguleika.

Niðurstöður af vinnu Orkustofnunar liggja nú fyrir. Lagðir eru fram 48 virkjunarkostir í vatnsafli og 33 virkjunarkostir í jarðvarma eða samtals 81 virkjunarkostur. Auk þess var Landsvirkjun gefinn kostur á að leggja fram tvo virkjunarkosti í vindi, þrátt fyrir að Orkustofnun hafði komist að þeirri niðurstöðu að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun ná ekki yfir slíka virkjunarkosti. Virkjunarkostirnir eru vítt og breitt um landið. Minnstu virkjunarkostir í vatnsafli eru 14 MW en sá stærsti er 156 MW. Jarðvarmavirkjanir eru frá því að vera 10 MW og upp í 150 MW.

Í þriðja áfanga rammaáætlunar er samanlagt afl virkjunarkosta í jarðvarma 2.495 MW og gætu þeir skilað um það bil 20,3 TWh. Þessir virkjunarkostir eru eðli málsins samkvæmt allir staðsettir á eða við gosbeltið. Ekki er hægt að leggja saman uppsett afl allra virkjunarkosta í vatnsafli, þar sem sumir virkjunarkostirnir útiloka hvor annan. Virkjanlegt vatnsafl þeirra virkjunarkosta sem um ræðir er því á bilinu 2.142 MW til 2.211 MW eftir því hvaða útfærsla verður fyrir valinu. Á sama hátt verður möguleg orkuvinnslugeta þessara virkjunarkosta á bilinu 15 til 15,4 TWh.

Virkjunarkostir í vatnsafli eru flestir á Suðurlandi eða 27, 13 eru á Norðurlandi en á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austurlandi eru tveir til þrír virkjunarkostir í vatnsafli í hverjum þessara landshluta. Flestir virkjunarkostirnir eru minni en 50 MW, samtals 26 virkjunarkostir, 14 eru af stærðinni 50 MW til 100 MW og 8 eru um eða yfir 100 MW.

Virkjunarkostir í jarðvarma eru flestir á gosbeltinu og fyrirfinnast því ekki á Vesturlandi, Vestfjörðum eða Austurlandi. Flestir virkjunarkostir í jarðvarma eru á Suðvesturlandi eða 14 talsins, 8 eru á hálendinu, 7 á Suðurlandi og 4 á Norðurlandi. Af virkjunarkostum í jarðvarma eru 9 minni en 50 MW, 15 virkjunarkostir eru af stærðinni 50 MW til 100 MW og 9 eru um eða yfir 100 MW.

Hagkvæmasti virkjunarkosturinn sem lagður er fram er Norðlingaölduveita, sem er eini virkjunarkosturinn í kostnaðarflokki 1. Virkjunarkostir í vatnsafli raða sér á kostnaðarflokka 1 til 6, þar af eru10 kostir í flokkum 1 til 3 en flestir eru í flokki 5 eða tæpur helmingur. Virkjunarkostir í jarðvarma raða sér í kostnaðarflokka 3 til 5.

Virkjunarkostir í vatnsafli og jarðvarma gefa kost á orkuvinnslugetu upp á allt að 25,7 TWh á ári sem er talsvert meira en raforkunotkun ársins 2014 sem var 18,1 TWh. Verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar hefur því úr ýmsu að moða til að vinna áætlun um vernd og nýtingu virkjunarkosta samkvæmt matsáætlun sem tekur tillit til allra þeirra sjónarmiða sem horfa þarf til við gerð slíkrar áætlunar.

Skýrsluna er að finna á vef stofnunarinnar: