Fréttir


Vistvænt eldsneyti í samgöngum

11.6.2015

Með tilkomu laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum sem sett voru árið 2014 hefur hlutur endurnýjanlegs eldsneytis á Íslandi aukist úr 0,2% í 2,4% þetta kemur fram í bæklingi sem Orkustofnun hefur gefið út um endurnýjanlegt eldsneyti.

Í upphafi árs 2014 tóku í gildi lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi sem kveða á um 3,5% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heildarsölu á orku til samgangna árið 2014 en 5% hlutdeild eftir það. Þetta er í samræmi við reglur sem gilda í Noregi og víðar en til að mynda í Svíþjóð er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum komið vel yfir 10%.

Evróputilskipun um endurnýjanlega orku setur bindandi kröfu um 10% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020. Þetta markmið nær jafnt yfir öll ríki sambandsins og Evrópska efnahagssvæðissins. Ísland er eftirbátur flestra annarra ríkja þegar kemur að hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum. Árið 2010 var hlutdeild endurnýjanlegrar orku 0,2% í samgöngum á landi, en er nú 2,4%.

Með lagasetningunni er sett söluskylda á söluaðila eldsneytis en ekki íblöndunarskylda líkt og gert hefur verið í sumum nágrannaríkjum okkar. Víðast hvar er íblöndun 5-10% og sums staðar er stefnt að enn hærri hlutdeild, eða 20%.
Söluaðilar eldsneytis hafa þannig frjálst val um tegund eldsneytis sem þeir selja, þannig að hægt sé að uppfylla markmið um hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heildarsölu með sem hagkvæmustum hætti. Allt endurnýjanlegt eldsneyti telst með í markmiðinu, þar með talið metan, raforka, lífdísill og íblandað bensín.

Eldsneyti unnið úr úrgangi vegur tvöfalt á við annað eldsneyti samkvæmt lögunum. Þá telur til að mynda metan unnið úr sorpi og lífdísill framleiddur úr sláturúrgangi tvöfalt á við eldsneyti sem framleitt er úr orkuplöntum. Þetta er gert til að auka vægi eldsneytis sem ekki hefur áhrif á fæðuframleiðslu. Þar fyrir utan setja lögin kröfu um að eldsneyti sé unnið með sjálfbærum hætti og dragi sannarlega úr losun koltvísýrings samanborið við jarðefnaeldsneyti. Krafist er vottunar um sjálfbæra framleiðslu alls endurnýjanlegs eldsneytis sem selt er til samgangna á Íslandi í samræmi við Evróputilskipun 2009/28/EB.

Orkustofnun er falið það hlutverk að fylgja lögunum eftir, sjá til þess að endurnýjanlega eldsneytið uppfylli þær sjálfbærnikröfur sem til þess eru gerðar og ber jafnframt skylda að gefa út yfirlit um notkun endurnýjanlegs eldsneytis.

Nánari upplýsingar um þessi mál er að finna í nýjum bæklingi sem Orkustofnun hefur gefið út á netinu.