Fréttir


Orkustofnun tekur saman upplýsingar um sölu upprunaábyrgða

2.6.2015

Íslensk fyrirtæki sem framleiða rafmagn geta selt upprunaábyrgðir til evrópskra fyrirtækja og hafa gert það frá árinu 2011. Orkustofnun hefur það hlutverk að reikna út endanlega raforkusölu á Íslandi eftir orkugjöfum.

Íslensk raforka er nánast öll framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum og því geta íslensku raforkufyrirtækin selt upprunaábyrgðir raforku til fyrirtækja á evrópska efnahagssvæðinu. Á móti kemur að íslensku orkufyrirtækin þurfa að gera grein fyrir þessum viðskiptum með því að taka á sig í staðinn ígildi samsvarandi magn raforku sem ekki er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum í sömu hlutföllum og samsetning raforkuframleiðslu er í Evrópu. Íslenskir raforkukaupendur fá upplýsingar um uppruna raforku  með raforkureikningi (uppgjörsreikningi) sínum einu sinni á ári.

Upprunaábyrgðir á raforku eru til þess að orkusali geti fullvissað orkukaupanda um að framleidd hafi verið orka með endurnýjanlegum orkugjöfum. Kaupendur upprunaábyrgða eru þeir sem sjá hag sinn í því að styðja við raforkuframleiðslu frá endurnýjanlegum orkugjöfum og styrkja þannig ímynd sína með því að kaupa upprunaábyrgðir raforku.

Á Íslandi er nánast öll raforkuframleiðsla frá endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðvarma og vatnsorku en einungis 0,02% er framleidd með jarðefnaeldsneyti eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Meiri hluti raforku í Evrópu á hins vegar uppruna sinn í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Á myndinni hér að neðan má sjá útreiknaðan uppruna raforku á Íslandi skv. útreikningum Orkustofnunar fyrir árið 2014. Sölufyrirtæki raforku  sem kaupa  upprunaábyrgðir skulu birta svokallaða staðlaða yfirlýsingu fyrir árið 2014. Í yfirlýsingunni kemur fram uppruni raforku og úrgangsefni vegna framleiðslu hennar og eru það þær upplýsingar sem íslenskir raforkukaupendur sjá á raforkureikningi sínum einu sinni á ári.

Því ber að halda til haga að hér á landi eru aðstæður með þeim hætti að raforka er hvorki flutt til eða frá landinu og því er sú raforka sem seld er hér á landi af endurnýjanlegum uppruna og verður það áfram þrátt fyrir framangreint. En til að hægt sé að halda því fram þarf að fylgja henni upprunaábyrgð. Samkvæmt lögunum er Landsneti falið að gefa út upprunaábyrgðir hér á landi en hlutverk Orkustofnunar er eftirlit, útreikningur og birting tölfræðiupplýsinga sem tengjast útgáfu upprunaábyrgða.

Hér er stöðluð yfirlýsing fyrir árið 2014