Fréttir


Ný stjórn Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

19.5.2015

Ný stjórn yfir Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna var sett í dag. Í stjórninni eru Dr. Jakob Rhyner, aðstoðarrektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, Dr. Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, María Erla Marelsdóttir frá Utanríkisráðuneytinu og Lúðvík S. Georgsson forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur starfað í Reykjavík frá 1979 og er hluti af þróunaraðstoð Íslendinga. Árlega koma um og yfir 30 raunvísindamenn og verkfræðingar frá þróunarlöndunum til 6 mánaða sérhæfðs náms í jarðhitafræðum og á annan tug eru í meistara- og doktorsnámi í samvinnu við Háskóla Íslands. Auk þess heldur skólinn árleg námskeið í Afríku og Mið-Ameríku. Jarðhitaskólinn er rekinn sem sjálfstæð eining innan Orkustofnunar. Fastir starfsmenn eru sex, en að auki kemur að kennslu fjöldi sérfræðinga frá rannsóknastofnunum, háskólum, verkfræðistofum og veitustofnunum.