Fréttir


Samstarfssamningur á sviði orkumála

8.5.2015

Guðni A Jóhannesson, orkumálastjóri undirritaði í dag samkomulag á milli Orkustofnunar á Íslandi og State Agency on Energy Efficiency and Energy Saving of Ukraine (SAEE). Forstjóri SAEE, Serhiy Savchuk staðfesti samkomulagið fyrir nokkrum dögum í Kænugarði, Úkraínu.

Undirritun samkomulagsins er í framhaldi af fundi sem utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson átti við yfirmenn SAEE, í Kænugarði á síðasta ári.  Á þeim fundi var rætt um möguleika á samstarfi íslenskra og úkraínskra aðila á sviði orkumála, m.a. til að kanna möguleika á því að Ísland aðstoði við að kortleggja tækifæri í nýtingu jarðhita þar í landi, sem lið í að auka fjölbreytni og efla þátt endurnýjanlegra orkugjafa í orkuöflun landsins. Í framhaldinu funduðu orkumálastjóri og Benedikt Höskuldsson frá utanríkisráðuneytinu með fulltrúum SAEE í þeim tilgangi að vinna að undirbúningi samkomulagsins. 

Helsta markmið samkomulagsins sem staðfest var í dag, er að auka samstarf stofnana, fyrirtækja og aðila á Íslandi og Úkraínu, er varðar greiningu og stefnumörkun á sviði orkunýtingar, orkuöryggis og sjálfbærrar þróunar á sviði orkumála, draga úr mengun sem veldur gróðurhúsaáhrifum, auka efnahagslega hagkvæmni orkukerfa og lífsgæði.

Orkustofnun mun m.a. aðstoða við skipulagningu, stjórnun, greiningu og framkvæmd verkefna í Úkraínu til að efla þróun og stefnumótun og nýtingu jarðhita til húshitunar. Gert er ráð fyrir að í fyrstu verði könnuð hvar sé möguleg nýting á jarðhita í Úkraínu, sérstaklega í vesturhluta landsins. Síðar er stefnt að þróun verkefna með aðkomu stofnana, sveitarstjórna,  samstarfi opinberra aðila og einkaaðila, annarra landa og alþjóðastofnana.

Samkomulagið tekur gildi við undirritun í dag 8. maí. Í framhaldinu mun Orkustofnun í samvinnu við SAEE og fleiri innlenda og erlenda aðila vinna að undirbúningi og skipulagningu á framkvæmd þeirra markmiða og verkefna sem kveðið er á um í samkomulaginu. Orkustofnun mun nýta sína þekkingu og reynslu af sambærilegum innlendum og alþjóðlegum verkefnum m.a. í Austur og Suður Evrópu í tengslum við Uppbyggingarsjóð EES. Orkustofnun hefur þegar gert samning við utanríkisráðuneytið um greiningu á hagkvæmni jarðhitaveitna í Úkraínu innan ramma samkomulagsins og er sú vinna þegar hafin.

Samkomulagið undirritað af orkumálastjóra og forstjóra SAEE má finna hér