Ársfundur 2015
Ársfundur Orkustofnunar var haldinn síðasta föstudag þann 10. apríl. Þar fluttu iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir og orkumálastjóri ávörp í upphafi fundar. Fjölbreytt erindi um orkumál voru á dagskrá fundarins þar á meðal erindi um orkusparnað, rammaáætlun, erlend verkefni og vindorku.
Ávarp flutti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og þakkaði hún starfsfólki stofnunarinnar fyrir vel unnin störf.
Þá flutti orkumálastjóri ávarp þar sem hann fór yfir liðið ár og fjallaði meðal annars um olíuleit á Drekasvæðinu og gagnrýndi þá ályktun sem samþykkt var á landsfundi Samfylkingar um að hætta við áformin og slíta gerðum samningum um olíuleit og vinnslu.
Sigurður Ingi Friðleifsson fjallaði um ýmis hagnýt ráð til að lækka húshitunarkostnað, eldsneytiskostnað og rafmagnsnotkun heimila. En á www.orkusetur.is má finna ýmsar reiknivélar sem geta aðstoðað fólk í þessum efnum. Þar er til að mynda reiknvél sem hjálpar fólki að velja rétta bílinn og réttu ljósperuna.
Erindi um rammaáætlun flutti Erla Björk Þorgeirsdóttir þar sem hún fór yfir hlutverk Orkustofnunar í rammaáætlun.
Baldur Pétursson fjallaði um verkefni Orkustofnunar á sviði jarðhita innan EES samningsins. Jafnframt fjallaði hann um ERA-NET verkefnið, árangur Íslands í uppbyggingu hitaveitunnar og uppbyggingarsjóð EES samningsins.
Margrét Arnardóttir frá Landsvirkjun fjallaði um vindorku og þau tækifæri sem felast í vindinum fyrir Ísland. Í erindi hennar kom fram að verkhönnunarferlið fyrir Búrfellslund er hafið en áætlað er að þar verði hægt að framleiða allt að 200 MW af raforku með vindorku. Þá fór hún einnig yfir stöðuna á vindorku í heiminum öllum en samkvæmt spám IRENA fyrir 2030 ætti vindorka að aukast verulega á næstu árum og vera álíka stór orkugjafi og vatnsaflið árið 2030.
Lúðvík S. Georgsson forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna fjallaði um stöðu og framtíðarsýn jarðhitaskólans.
Allar glærur frá fundinum má finna hér
Ársskýrsla Orkustofnunar 2014 sem dreift var á fundinum er hér
Orkutölur 2014 lítill bæklingur um helstu orkutölur landsins.