Eru áhrif smávirkjana á lífríki ferskvatnsfiska vandamál?
Að gefnu tilefni og vegna umræðu undanfarinna daga um áhrif smávirkjana á ferskvatnsfiska og lífríki á vatnasviði þeirra, vill Orkustofnun benda á, að frá því í júlímánuði árið 2008 hafi þurft leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka raforkuver. Ekki þarf þó slíkt leyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW til einkanota. Þá er óheimilt, nema að fengnu leyfi Orkustofnunar samkvæmt ákvæðum vatnalaga eða eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. lögum um lax- og silungsveiði, að breyta vatnsfarvegi með mannvirkjum, þ.m.t. stíflum vegna virkjana.
Við útgáfu virkjunarleyfa eða leyfa samkvæmt ákvæðum vatnalaga, er ávallt leitað umsagna hagsmunaaðila og viðkomandi veiðifélaga og eftir atvikum Fiskistofu/Veiðimálastofnunar, sem er rannsóknastofnun á sviði ferskvatnsfiska og lífríkis þeirra, til að tryggja að sjónarmið varðandi lífríkið komi til álita við leyfisveitinguna.
Með breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem tók gildi um síðustu áramót, er kveðið á um að vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira skulu tilkynntar til Skipulagsstofnunar sem metur hvort umrædd framkvæmd er háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki. Einnig er kveðið á um að smávirkjanir með uppsett rafafl allt að 200 kW skulu tilkynningaskyldar til Skipulagsstofnunar sem gefur út leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum þeirra, m.a. um verklag og viðmið við ákvörðun sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmdanna við slíkar virkjanir. Í ljósi ofanritaðs er gildandi regluverk fullnægjandi, að mati Orkustofnunar, til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif smávirkjana á ferskvatnsfiska og lífríki þeirra.