Fréttir


Ný námslína í verkefnastjórnun og fjármálum við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

27.3.2015

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur ákveðið að bjóða upp á nýja námslínu í sex mánaða þjálfuninni þar sem áherslan er lögð á verkefnastjórnun og fjármál jarðhitaverkefna.

Grunnuppsetning línunnar er sú sama og hjá hinum línunum, þ.e. 5 vikna inngangsfyrirlestrar, 7 vikna sérhæfð þjálfun og 12 vikna einstaklingsverkefni.Nemendur taka einnig þátt í hópavinnu ásamt því að tvær vikur eru tileinkaðar námsferðum.  Tveir þriðju hluta námslínunnar verða tileinkaðar verkefnastjórnun og einn þriðji fjármálum og fjármögnun jarðhitaverkefna.  Lögð verður áhersla á bæði fræðilega og hagnýta nálgun. 

Nýja námslínan byggir á tveimur námskeiðum sem haldin voru fyrr á árinu í Eþíópíu.  Námskeiðið „Short Course on Geothermal Project Management” var þróað af Verkís með aðstoð frá Háskólanum í Reykjavík og “ Short Course on Preparations of Bankable Documents for Geothermal Projects” sem var þróað af Landsvirkjun í samstarfi við  Kristján Ólafsson, hagfræðing. 

Umsjónarmaður nýju línunnar og nýr námsráðsmeðlimur Jarðhitaskólans er Dr. Helgi Þór Ingason dósent og forstöðumaður MPM námsins við Háskólann í Reykjavík.  Þeir sem koma að hönnun námslínunnar og sjá um kennsluna eru sérfræðingar frá HR, Verkís, Landsvirkjun og KPMG.  Meðal þeirra má nefna Dr. Hauk Inga Jónasson lektor og Dr. Pál Jensson prófessor við HR, Yngva Guðmundsson og Carine Chatenay verkfræðinga hjá Verkís ásamt Dr. Bjarna Pálssyni deildarstjóra hjá Landsvirkjun og Gunnari Tryggvasyni verkfræðingi og sérfræðingi hjá KPMG.

Nýja námslínan verður kennd í vor með nemendum frá Eþíópíu og Kenía.