Fréttir


Orkustofnun heldur norrænt málþing um málmleit á landi og hafsbotni

18.3.2015

Orkustofnun heldur þriðja NordMin málþingið í ráðstefnusal Nauthóls í Reykjavík 23.–24. mars nk. Yfirskrift málþingsins er On- and Offshore Exploration and Prospecting in Extreme Nordic Environments: Challenges and Benefits of Finding Exploitable Raw Materials. Á málþinginu verður fjallað um málmleit á landi og hafsbotni á Norðurlöndunum.

Síðan í maí 2012 hefur Orkustofnun, fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, haldið utan um þátttöku Íslands í norræna samstarfsverkefninu NordMin: A joint Nordic Network of Expertise for a Sustainable Mining and Mineral Industry, en kynningarbækling verkefnisins má finna hér. Norræna ráðherranefndin leggur verkefninu til 30 millj. dkr. á tímabilinu 2013–2016, sem jafngildir um 600 millj. ísl. kr. Samhliða norrænu fjárveitingunni verður hugað að öðrum leiðum til að fjármagna starfsemi NordMin til lengri tíma.

Á vorráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands 13. mars sl., kynnti íslenski NordMin vinnuhópurinn þau NordMin verkefni sem íslenskar stofnanir og fyrirtæki hafa tekið þátt í á undanförnum árum, en ágrip erindisins má finna hér.

Á málþinginu gefst gott tækifæri til að hitta helstu norrænu sérfræðingana á sviði málmleitar, taka þátt í umræðuhópum, og undirbúa norræn samstarfsverkefni á sviði málmleitar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun við setningu málþingsins afhenda viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf á sviði gullleitar á Íslandi.

Á sunnudeginum 22. mars verður boðið upp á skoðunarferð um Reykjanesið, í Hellisheiðarvirkjun og í Þormóðsdal. Á mánudeginum 23. mars verður fjallað um málmleit á hafsbotni, en aðalfyrirlesari verður Dr. John Jamieson, jarðfræðingur, frá GEOMAR í Kiel í Þýskalandi, en fyrirlestur hans ber titilinn: Formation and resource potential of seafloor massive sulfide deposits. Þriðjudaginn 24. mars verður fjallað um málmleit á landi, en aðalfyrirlesari verður Dr. Pasi Eilu, jarðfræðingur, frá finnsku jarðfræðistofnuninni (GTK), en erindi hans nefnist: Exploration potential of Fennoscandia.

Dagskrá málþingsins má finna hér.

Þátttaka í skoðunarferð, málþingi og hátíðarkvöldverði á mánudagskvöldið er ókeypis, en sætafjöldi er takmarkaður, og því þarf að skrá sig. Vinsamlegast sendið beiðni um skráningu til Bryndísar G. Róbertsdóttur, bgr@os.is, en hún veitir nánari upplýsingar um málþingið í símum 569-6024 og 662-6857.