Fréttir


Ísland heiðursland á stærstu árlegu jarðhitaráðstefnu og -sýningu Þýskalands 

11.3.2015

Þann 4. – 5. mars sl. var Ísland heiðursland á stærstu árlegu jarðhitasýningu í Þýskalandi sem haldin var í Offenburg.  Af því tilefni var Orkustofnun með sérstakan sýningarbás á ráðstefnunni og flutti Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri eitt af opnunarerindum ráðstefnunnar, auk þess sem hann átti viðtöl við fjölmiðla.

Í erindi sínu lagði Guðni áherslu á mikilvægi jarðhitans sérstaklega í hitaveituverkefnum í þeim tilgangi að auka öryggi í framboði á orku og til að draga úr mengum sem stafaði af notkun á jarðefnaeldsneyti. Einnig benti hann á þann mikla sparnað sem nýting jarðhitans gæti skilað og tók dæmi frá Íslandi þar sem árlegur sparnaður af hitaveitum með jarðvarma miðað við kyndingu með olíu, hefði verið um 5,5% af landsframleiðslu á Íslandi árið 2013. Þetta næmi árlega um 2.400 Bandaríkjadollurum eða sem nemur 320 þúsund krónum á hvern íbúa og 1,3 milljónum króna á hverja 4ra manna fjölskyldu á hverju ári.       

Einnig flutti Hjalti Páll Ingólfsson, framkvæmdastjóri GEORG -   rannsóknaklasa í jarðhita, erindi á ráðstefnunni þar sem hann gerði grein fyrir samstarfi á sviði jarðhita á Íslandi bæði á sviði rannsókna og viðskiptaþróunar.  Hann kynnti sérstaklega þá þróun sem orðið hefur á klasasamstarfi í greininni og þau verkefni sem klasasamstörfin GEORG og Iceland Geothermal standa fyrir, en frá stofnun þeirra árið 2009 hefur yfir 50 verkefnum verið hrint af stað sem mörg hver hafa skilað mjög góðum árangri.  Sem dæmi má nefna Startup Energy Reykjavik viðskiptahraðalinn þar sem fjárfest hefur verið í 14 áhugaverðum teymi og þau fengið mikilvæga leiðsögn til að þróa og betrumbæta hugmynd  sína og kynna fyrir alþjóðlegum fjárfestum. 

Á ráðstefnunni kom fram að umtalsverð aukning væri framundan í hitaveituverkefnum með jarðvarma í Evrópu frá  2014 til 2018 og líklega væri þessi markaður sá hluti jarðvarmamarkaðarins þar sem vöxtur væri hvað mestur. Mesta aukning á slíkum verkefnum væri í Frakklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Rúmeníu, Serbíu, Danmörku, Slóveníu, Slóvakíu, o.fl. Nú þegar eru fyrirtæki frá Íslandi að vinna að slíkum verkefnum í sumum þessara landa.