Raforkuframleiðsla ársins 2014
Árið 2014 var heildarraforkuframleiðsla á Íslandi 18.120 GWh. Þetta er álíka mikil framleiðsla og árið 2013 (18.116 GWh) en um 3,3% meira en árið 2012 (17.549 GWh).
Á mynd 1 má sjá raforkuframleiðslu á Íslandi frá 1969 ásamt prósentubreytingu milli ára. Árin 1975, 1985 og 1990 er samdráttur í framleiðslu. Mynd 2 sýnir raforkuframleiðslu eftir mánuði árið 2014 og mynd 3 sýnir hlutfallslega skiptingu raforkuframleiðslu ársins 2014 eftir orkugjafa. Raforkuframleiðsla á hvern íbúa árið 2014 var 55,6 MWh og hefur aukist um tæp 90% frá 2004 en þá var raforkuframleiðsla 29,7 MWh/íbúa.
Raforkuframleiðsla úr vatnsorku gegnir burðarhlutverki
Vatnsorkan er önnur af tveimur mikilvægustu orkuauðlindum Íslands og gegnir þar burðarhlutverki í raforkubúskap þjóðarinnar. Árið 2014 var framleiðsla rafmagns úr vatnsorku 12.872 GWh sem er um 70% af heildarframleiðslu landsins. Vatnsorkan byggir á þeim orkustraum sem fylgir sífelldri hringrás vatnsins – úrkomunni er skapar rennandi vatn á yfirborði landsins – ásamt þeim hæðarmun sem nýtanlegur er til virkjunar í viðkomandi vatnsfalli. Sérkenni vatnsaflsins er hversu auðvelt er að mæta snöggum sveiflum í eftirpurn eftir raforku. Það gerist með því að auka eða minnka vatnsrennslið eftir því sem við á. Mynd 4 sýnir raforkuframleiðslu úr vatnsorku árið 2014, 2013 og 2012 eftir mánuði. Stærsta vatnsaflsvirkjun landsins er Kárahnjúkavirkjun.
Raforkuframleiðsla með jarðvarma stendur í stað milli ára
Stærstur hluti jarðhitans á Íslandi er nýttur til húshitunar, um 43%. Næst á eftir húshitun er raforkuvinnsla með tæp 40%. Samanlagt nýta þessar tvær einingar um 83% af jarðhita landsins. Jarðvarmavirkjanir sem vinna raforku eru staðsettar á háhitasvæðum sem öll liggja á gosbeltinu þar sem skilyrðin eru hagkvæmust vegna nægra varmagjafa og margsprunginnar og vel vatnsgengrar jarðskorpu. Stærsta jarðvarmavirkjun landsins er Hellisheiðarvirkjun og næst í röðinni er Nesjavallavirkjun. Árið 2014 nam raforkuvinnsla með jarðvarma 5.238 GWh sem er nánast sama framleiðsla og árið 2013 en þá nam framleiðslan 5.245 GWh. Raforkuframleiðsla úr jarðvarma skipt eftir mánuðum árin 2014, 2013 og 2012 er sýnd á mynd 5.
Rafmagn framleitt úr vindorku myndi nægja um 1.600 heimilum til daglegra nota
Framleiðsla á raforku úr vindorku inn á flutningskerfið er nýnæmi á Íslandi. Í janúar 2013 voru fyrstu vindrafstöðvarnar tengdar við flutningskerfið en það voru tvær 900 kW vindrafstöðvar í eigu Landsvirkjunar. Á milli áranna 2013 og 2014 hefur framleiðsla á rafmagni með vindorku aukist um rúm 48%. Árið 2013 var heildarframleiðsla rafmagns með vindorku 5.485 MWh en 8.127 MWh árið 2014. Framleiðslan myndi duga til að sjá um 1.600 heimilum fyrir rafmagni til daglegra nota[1]. Mynd 6 sýnir framleiðslu á raforku úr vindorku árið 2014 og 2013 eftir mánuði.
[1] Miðað við almenna heimilisnotkun í kringum 5 MWh á ári.
Samdráttur í raforkuframleiðslu með jarðefnaeldsneyti
Framleiðsla á raforku úr jarðefnaeldsneyti hefur minnkað stöðugt síðustu ár. Árið 2002 var framleiðsla raforku úr eldsneyti um 5 GWh en árið 2014 var framleiðslan 2,4 GWh. Ef borin eru saman árin 2014 og 2013 kemur í ljós að raforkuframleiðsla úr eldsneyti hefur dregist saman um rúm 13%. Ein af ástæðunum fyrir þessum samdrætti er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja sem bæði sparar gjaldeyri og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sem dæmi má nefna að rafvæðing loðnuvinnslu Eskju á Eskifirði sparar olíu sem nemur árlegri notkun tæplega 6.000 bíla[1].
Mynd 7 sýnir framleiðsla á raforku úr jarðefnaeldsneyti á mánuði fyrir árin 2012, 2013 og 2014. Um áramótin 2012/2013 gerði mjög slæmt veður á Vesturlandi þar sem raflínur fóru í sundur og raforkuskerðing fylgdi í kjölfarið. Til að koma í veg fyrir mikla raforkuskerðingu voru varaaflstöðvar settar í gang, en þær nota olíu til að framleiða rafmagn. Þetta sést vel á mynd 7, tveir stöplar sem liggja þétt uppvið 1.000 MWh línuna.
[1] Orkusetur áætlar að meðalbíll eyði um 1 tonni á ári miðað við 12.600 km akstur. Gróflega má áætla að 100 tonn af olíu samsvari 1 GWh.