Fréttir


Orkuskipti í samgöngum eru ótvírætt framfaraskref

6.3.2015

Árið 2011 var samþykkt á Alþingi stefnumótun varðandi aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa þar sem m.a. er kveðið á um að árið 2020 skuli hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum vera 10%. 

Helstu röksemdir lutu að því að minnka hlut jarðefnaeldsneytis og leggja þannig lóð á vogarskálar umhverfisverndar, uppbyggingu innlendrar eldsneytisframleiðslu, gjaldeyrissparnaðar og aukins orkuöryggis sem felst í því að við verðum minna háð innfluttri orku.

Til að ná þessu markmiði eru ýmis ráð, s.s. að fjölga bifreiðum sem ganga fyrir rafmagni og öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum sem og íblöndun í hefðbundið eldsneyti.

Um nýliðin áramót tóku í gildi reglur sem kveða á um 5% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heildarsölu á orku til samgangna. Þetta er í samræmi við reglur sem gilda í Noregi og víðar en t.a.m. í Svíþjóð er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum komið vel yfir 10%.

Undanfarið hafa heyrst úrtöluraddir sem finna þessu flest til foráttu; þetta þýði allt í senn verra og dýrara eldsneyti  sem fari illa með bílvélar, auk þess sem Ísland standi sig það vel varðandi orku til húshitunar og rafmagnsframleiðslu að óþarfi sé að huga að orkuskiptum í samgöngum.

Af þessu tilefni hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samstarfi við Orkustofnun, Samtök iðnaðarins og Bílgreinasambandið tekið saman eftirfarandi upplýsingapunkta í því augnamiði að bregða birtu á málið og leiðrétta nokkrar rangfærslur sem haldið hefur verið fram.

1. Lög um endurnýjanlegt eldsneyti byggja á tillögum nefndar sem í sátu m.a. fulltrúar frá Bílgreinasambandinu, Samtökum iðnaðarins, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum íslenskra sveitarfélaga og stjórnvalda   

Lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi nr. 40/2013 eru liður í því að fylgja eftir stefnumótun sem birtist í aðgerðaraáætlun um orkuskipti í samgöngum sem þáverandi iðnaðarráðherra lagði fram á Alþingi í lok árs 2011. Áætlun þessi var unnin af verkefnisstjórn sem ráðherra setti á laggirnar með aðkomu aðila frá ráðuneytum, Samtökum iðnaðarins, FÍB, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum íslenskra sveitarfélaga og Bílgreinasambandinu. Í skýrslunni eru lagðar til fjölmargar aðgerðir til að auka hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum án þess að gera einni tæknilausn hærra undir höfði en annarri. Þar má m.a. telja vistvænni orkugjafa, ívilnanir fyrir vistvænar bifreiðar, aðgerðir í öryggis- og menntunarmálum og rannsóknum o.fl.

Á bls. 48 í skýrslunni er ein af aðgerðunum sem verkefnisstjórn kom sér saman um „Hlutfall íblöndunarefna í jarðefnaeldsneyti verði skoðað með tilliti til lagasetningar um íblöndun“. 

Skýrsla Grænu orkunnar 

2. Skýr áhersla í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar kemur m.a. fram: „Nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur. Hvatt verði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.“

3. Ísland hefur vissulega náð landsmarkmiðum um heildarorku - en er aftarlega á merinni þegar kemur að hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum - 10% krafan gildir fyrir öll ríki innan Evrópusambandsins og EFTA

Tilskipun um endurnýjanlega orku 2009/28/EB setur 20% heildarmarkmið fyrir Evrópu í heild. Hins vegar eru sérstök landsmarkmið um heildarorku sett miðað við hvar ríki er statt. Tilskipun setur einnig bindandi kröfu um 10% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020. Þetta markmið nær jafnt yfir öll ríki óháð því hve há hlutdeild endurnýjanlegrar orku er í heildarorkunotkun hvers ríkis. Þannig er t.a.m. landsmarkmið Svíþjóðar 49% og samgöngumarkmið 10%. Fyrir Ísland er landsmarkmið 72% og samgöngumarkmið 10%. Þannig er tilskipunin og markmiðin sniðin að mismunandi aðstæðum allra ríkja og þurfa öll ríki að leggja sitt af mörkum í samgönumarkmiði, óháð því hvar ríki eru stödd í orkuskiptum á öðrum sviðum. Ísland hefur náð heildarmarkmiði sínu um orkuhlutdeild þar sem nánast öll raforka og hiti til húsa  er af endurnýjanlegum uppruna og því búið að ná fram fullum orkuskiptum í þeim geirum. Hins vegar er landið langt frá því að ná samgöngumarkmiðinu. Árið 2010 var hlutdeild endurnýjanlegrar orku 0,2% í samgöngum á landi, en er nú 2,4%. Ísland er eftirbátur flestra annarra ríkja þegar kemur að hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum. Svíþjóð er komið vel yfir 10% hlutdeild í samgöngum og önnur ríki fylgja fast á eftir.

4. Markmið Íslands og ráð eru sambærileg og hjá Norðmönnum - Lögin kveða á um 5% söluskyldu – ekki 5% íblöndunarskyldu!

Noregur hefur svipuð markmið og sambærilegar kröfur á eldsneytismarkað um söluskyldu endurnýjanlegs eldsneytis. Noregur hefur háa hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heildarnotkun eins og Ísland. Tekið var mið af norsku lögunum um söluskyldu við gerð frumvarps til laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum hér á landi. Samkvæmt lögunum er sett krafa um 5% hlutdeild endurnýjanlegrar orku frá 1. janúar 2015. Sett er söluskylda á söluaðila eldsneytis, en ekki íblöndunarskylda eins og sums staðar annars staðar. Söluaðilar eldsneytis hafa þannig frjálst val um tegund eldsneytis sem þeir selja, þannig að hægt sé að uppfylla markmið um 5% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heildarsölu með sem hagkvæmustum hætti. Allt endurnýjanlegt eldsneyti telst með í markmiðinu, þ.m.t. metan, raforka, lífdísill og íblandað bensín.

5. Endurnýjanlegt eldsneyti skal framleitt með sjálfbærum hætti - Markvisst er unnið að því að auka hlut eldsneytis sem unnið er úr úrgangi

Tilskipun um endurnýjanlega orku 2009/28/EB setur kröfu um að endurnýjanlegt eldsneyti verði framleitt með sjálfbærum hætti. Orkustofnun hefur eftirlit með lögum nr. 40/2013 og því að endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna sé framleitt með sjálfbærum hætti. Lögin um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi gefa eldsneyti sem unnið er úr úrgangi tvöfalt vægi á við annað eldsneyti. Þannig telur t.a.m. metan og lífdísill sem framleiddur er úr sláturúrgangi tvöfalt á við eldsneyti sem framleitt er úr orkuplöntum. Þetta er gert til að auka vægi eldsneytis sem ekki hefur áhrif á fæðuframleiðslu. Þar fyrir utan setja lögin kröfu um að eldsneyti sé unnið með sjálfbærum hætti og dragi sannarlega úr losun koltvísýrings samanborið við jarðefnaeldsneyti. Krafist er vottunar um sjálfbæra framleiðslu alls endurnýjanlegs eldsneytis sem selt er til samgangna á Íslandi í samræmi við tilskipun 2009/28/EB.

Etanól er unnið úr ýmsum orkuplöntum, bæði úr fæðuplöntum eins og korni og sykurreyr en einnig frá plöntum sem ekki eru nýttar til fæðuframleiðslu eins og stráum og viði (e. cellulosic ethanol). Hjá Evrópusambandinu er væntanleg löggjöf á þessu ári sem setur hámark á leyfilega notkun fyrstu kynslóðar eldsneytis sem hefur áhrif á fæðuframleiðslu. Aukin áhersla verður á notkun annarrar kynslóðar eldsneytis sem unnið er úr úrgangi.

6. Innlend framleiðsla var árið 2014 um 45% af öllu endurnýjanlegu eldsneyti sem selt var til samgangna - 300 m.kr. gjaldeyrissparnaður og nýr sprotaiðnaður í örum vexti

Innlent eldsneyti sem selt er til samgangna hér á landi hefur fimmfaldast í magni á undanförnum fjórum árum. Framleiðsla innlends eldsneytis er hagkvæm fyrir þjóðarbúið þar sem gjaldeyrir sparast sem annars færi til kaupa á innfluttu jarðefnaeldsneyti, auk þess sem margvísleg störf skapast í kringum þennan iðnað bæði bein og afleidd. Þá er orkuöryggi landsins aukið með því að verða minna háð innfluttum orkugjöfum.

Áætlað er að árið 2014 hafi innlend framleiðsla sparað um 300 m.kr. í gjaldeyri sem annars hefði farið í kaup á innfluttu jarðefnaeldsneyti. Árið 2014 var innlend framleiðsla 45% af öllu endurnýjanlegu eldsneyti sem selt var til samgangna hér á landi. Innlendur eldsneytisiðnaður er sprotastarfsemi sem er í örum vexti og hefur alla burði til að aukast og stækkar þar með hlut innlendrar orkunotkunar í samgöngum.

7. Bílaframleiðendur gera engar athugasemdir við íblandað eldsneyti enda er íblandað eldsneyti regla frekar en undantekning í nágrannalöndunum

Íblöndun lífeldsneytis í hefðbundið jarðefnaeldsneyti hefur verið í gangi mun lengur en hér á landi í nágrannaríkjum okkar og víðar án þess að borið hafi á tæknilegum vandamálum fyrir bifreiðar. Víðast hvar er íblöndun 5-10% og sums staðar er stefnt að enn hærri hlutdeild, eða 20%. 

Íblöndun á etanóli allt að 10% (E10) er í lagi fyrir allar venjulega bensínvélar samkvæmt heimildum frá bandaríska orkumálaráðuneytinu. Bifreiðar framleiddar eftir 2001 geta notað enn hærri blöndu etanóls, eða allt að 15% (E15). Bílgreinasambandið hefur gefið út yfirlýsingar varðandi íblöndun á metanóli og etanóli. Samtökin gera ekki athugasemdir við íblöndun metanóls allt að 3% af rúmmáli[2].

8. Íblandað bensín gefur ríflega 1,65% verri orkunýtni

Etanól er um þriðjungi orkurýrara en venjulegt bensín. Ef bensín er blandað með 5% etanólí, sem væri algengast hér á landi miðað við sölumarkmið laganna, þá er eyðslan meiri sem nemur 1,65%. Ef etanól er í stærri hlutföllum, þá er orkunýtnin verri sem því nemur. Þannig er E10 blanda með 3,3% verri orkunýtni. Þess má geta að orkuinnihald bensíns er almennt breytilegt vegna þess að efnablandan sem er uppistaðan í bensíni er náttúrulega breytileg, hvort sem um íblöndun er að ræða eða ekki.

9. Áhrif íblöndunar á bensínverð eiga að vera lítil

Ráðuneytið hefur ekki nákvæmar tölur um innkaupsverð á endurnýjanlegu eldsneyti en bendir á að endurnýjanlegt eldsneyti nýtur skattalegrar ívilnunar frá vörugjöldum (olíugjald, bensíngjald og sérstakt bensíngjald) og eldsneytis- og kolefnisgjaldi. Því ætti ekki að vera um teljandi verðmun að ræða á milli hefbundins bensín og bensíns sem er íblandað með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Erfitt er að fullyrða um innkaupsverð og endanlegt verð til neytenda, bæði er hægt að finna heimildir um ódýrara endurnýjanlegt eldsneyti og dýrara í samanburði við jarðefnaeldsneyti. Auk þess spilar inní oft á tíðum snöggar breytingar á olíumarkaði og niðurgreiðslustyrkir ríkja fyrir bæði hefðbundið og óhefðbundið eldsneyti. Hins vegar fylgir endurnýjanlega eldsneytið yfirleitt verðþróun jarðefnaeldsneytisins yfir lengri tíma[3]. Þannig getur verið að það hátti til að eftir snögga olíuverðslækkun, þá sé endurnýjanlega eldsneytið dýrara en olían, en eftir ákveðinn tíma leitar verð þess einnig niður á við. Framleiðslukostnaður er einnig vísbending um endanlegt verð, þó dreifikostnaður, birgðahald, álagning og annað geti verið ólíkt jarðefnaeldsneyti. Ódýrasta endurnýjanlega eldsneytið í framleiðslu samkvæmt heimildum er etanól unnið úr korni og sykurreyr. Framleiðslukostnaður þess er lægri en fyrir jarðefnaeldsneyti og því samkeppnishæft við jarðefnaeldsneytið að þessu leyti[4].[2] Allir bílar seldir á markaði hérlendis af bílaumboðum og búnir eru rafkveikjuhreyfli (bensínbílar) þurfa að vera búnir til notkunar á bensíni sem uppfyllir CEN staðal EN228. Staðall EN228 fyrir bensín og sambærileg ákvæði íslenskrar reglugerðar um gæði eldsneytis nr. 560/2007 heimilar íblöndun metanóls við bensín allt að 3% að rúmmáli. Bílgreinasambandið gerir því ekki athugasemdir við sölu bensíns blandað metanóli að því tilskyldu að eftir íblöndun sé tryggt að öðrum skilyrðum staðals og reglugerðar um gæði bensíns sé einnig fylgt.

[3] http://www.afdc.energy.gov/fuels/prices.html

[4] http://www.iea.org/publications/freepublications/publication/FeaturedInsights_AlternativeFuel_FINAL.pdf