Fréttir


Endanlegur listi yfir virkjunarkosti í rammaáætlun

6.3.2015

Endanlegur listi yfir 80 virkjunarkosti hefur nú verið lagður fyrir verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar, þar af eru 48 í vatnsafli en 32 í jarðvarma. Einn virkjunarkostur hefur verið dreginn til baka (Ölfusdalur) og einn leiðréttur (Norðlingaalda).

Þann 20. janúar 2015 lagði Orkustofnun 50 virkjunarkosti fyrir verkefnisstjórn. Þrír af þeim virkjunarkostum voru dregnir til baka á fundi 20. febrúar 2015 þegar 33 nýir virkjunarkostir voru lagðir fram. Á þeim tímapunkti var óvissa um einn virkjunarkost, Ölfusdal en sá kostur hefur nú verið dreginn til baka. Í kjölfar fundarins þann 20. febrúar barst Orkustofnun beiðni frá Landsvirkjun um að fá að leiðrétta gögn vegna Norðlingaölduveitu, sem lögð voru fram þann 20. janúar, í ljósi ákvarðana sem teknar voru á síðasta ári en höfðu ekki náð fram að ganga. Leiðrétt gögn sem nú eru lögð fram eru með lægri lónshæð en áður, 364,5 m y.s. í stað 365 m y.s. Eldri gögnin sem nú eru úrelt voru auðkennd sem kostur R3127A, en leiðrétt gögn eru auðkennd sem kostur R3127B, þar sem um aðra tilhögun er að ræða.

Listi yfir alla 80 virkjunarkostina liggur því fyrir. Virkjunarkostir í vatnsafli eru 48 og virkjunarkostir í jarðvarma eru 32.

Gögn sem send hafa verið til verkefnisstjórnar er að finna hér 

Gögnin eru enn í formi skýrsludraga, þar sem endanlegt snið á skýrslunni, skýrslunúmer og númer á köflum liggja ekki fyrir. Einnig hefur Orkustofnun ekki lokið kostnaðarflokkagreiningu fyrir þá virkjanakosti sem stofnunin leggur fram né hefur gefist tími til að rýna kostnaðarflokkagreiningu frá orkufyrirtækjunum. Öll aðalatriði varðandi tilhögun virkjunarkostanna liggja þó fyrir.