Fréttir


Árangur borana á háhitasvæðum um sjötíu og fimm prósent

6.2.2015

Þrjár af hverjum fjórum borholum á háhitasvæðum reynast nýtanlegar samkvæmt nýrri úttekt sem unnin var fyrir Orkustofnun af Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR). Að jafnaði er afkastageta nýtanlegra holna 7 MW í raforku

Í rannsókninni er skoðað hversu margar holur hafa verið boraðar á hverjum stað áður en árangur telst viðunandi. Niðurstaðan sýnir að um 40% líkur eru á árangi við fyrstu holu, 60% að jafnaði á fimmtu holu og 74% á þeirri fimmtándu.

Meðalafl 158 nýtanlegra holna á gagnasafninu er 6,7 MWe þar sem sú öflugasta er talin hafa gefið 35 MWe. Meðalafl allra 213 boraðra holna er hinsvegar 4,9 MWe.

Borholur með boraða lengd 2000‒2500 m eru afkastamestar eða 5,8 MWe. Næstar þeim koma holur með boraða lengd 1500‒2000 m og meðalafl 5,5 MWe. Bæði þessi lengdarbil sýndu 83% árangur að jafnaði.

Árangurshlutfall lóðréttra og stefnuboraðra holna er svipað en meðalafköst lóðréttra holna er 4.0 MWe en 6,1 MWe í stefnuboruðum holum, eða um 50% hærra.

Of lágur þrýstingur er algengasta ástæðan fyrir misheppnuðum vinnsluholum eða um tíu prósent. Aðrar ástæður eru vandræði við borun 6%, hitastig ekki nógu hátt 4%, þétting of mikil 3% og önnur þrjú prósent svara til holna sem ekki ná niður í jarðhitageyminn.

Erindi Björns Más Sveinbjörnssonar um rannsóknina sem flutt var í Orkugarði 4. febrúar sl. má finna hér en skýrsluna má nálgast rafrænt hér.