Fréttir


Árangur borana á háhitasvæðum

29.1.2015

Næsta miðvikudag mun Björn Már Sveinbjörnsson fjalla um verkefnið “Árangur borana á háhitasvæðum” (Success of High Temperature Geothermal Wells in Iceland). Erindið verður haldið í Orkugarði þann 4. febrúar klukkan 12:00.

Verkefnið “Árangur borana á Háhitasvæðum” snýst um árangur borana á sjö helstu vinnslusvæðum háhita hér á landi. Árangur borana er greindur í heild, einnig eftir dýpt og vídd beinna eða stefnuboraðra holna og hita jarðhitageymis. Jafnframt er skoðað hvernig árangur þróast með tíma og auknum fjölda holna á hverju svæði.

Í skýrslu um verkefnið sem gefin var út í desember 2014 var fjallað um 213 háhitaholur með áætlað 4,9 MW rafafl að meðaltali. Af þessum háhitaholum eru 74% taldar nýtanlegar og er áætlað rafal þeirra 6,7 MW að meðaltali. Aflmesta borholan í safninu var 35 MWe. Borholur með boraða lengd 2000-2500 m eru afkastamestar eða 5,8 MW. Næstar þeim koma holur með boraða lengd 1500-2000 m og meðalafl 5,5 MW.

Gögnin voru valin og flokkuð á sama hátt og í skýrslu International Finance Corporation (IFC, 2013) þar sem fjallað var um háhitaholur í 14 löndum. Niðurstöður greiningar á íslenskum háhitaholum eru í flestu tilliti svipaðar þeim sem fengust við greiningu á stærra gagnasafni í IFC skýrslunni.

Gögnin byggjast á Borholuskrá Orkustofnunar og skýrslum sem aðgengilegar voru um árangur og afl borholna. Hliðsjón var höfð af eldri úttekt Orkustofnunar frá árinu 1992 á borárangri víða um heim, þar með talið á sex íslenskum háhitasvæðum.

Rafrænt eintak af skýrslunni má nálgast hér.