Fréttir


Í tilefni umfjöllunar um virkjunarkosti í þriðja áfanga rammaáætlunar

22.1.2015

Nú er í fyrsta sinn unnið samkvæmt gildandi lögum (48/2011) og reglugerð (530/2014)  að gerð rammaáætlunar. Telja verður eðlilegt út frá sjónarmiðum stjórnsýslulaga að allir virkjunarkostir fái almenna umfjöllun á grundvelli nýs fyrirkomulags og njóti jafnræðis í meðferð Orkustofnunar og verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar.

Rammaáætlun er orkunýtingaráætlun sem vinna á samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana (105/2006) og byggir á þekktri aðferðafræði samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins (2001/42/EB).

Varðandi fyrirliggjandi flokkun virkjunarkosta er rétt að benda á að flokkun virkjunarkosta í verndarflokk eða biðflokk í vinnu verkefnisstjórnar annars áfanga rammaáætlunar byggði á stundum á kröfum um gögn sem ekki tilheyra áætlunarstigi heldur framkvæmdastigi (sbr. Mynd). Í raun er rammaáætlun samkvæmt lögunum ferli þar sem stórt mengi virkjunarkosta er endurskoðað á fjögurra ára fresti og getur hver þeirra sem er átt sér eilíft líf í því ferli, þar til virkjunarkostur hefur annað hvort verið nýttur eða friðlýstur.


Að svæði sé sett í verndarflokk í rammaáætlun jafngildir ekki friðun svæðisins - enda koma lögin um rammaáætlun ekki í stað náttúruverndarlaga. Meðan svæði hefur ekki verið friðað, þá þarf að halda því inni í rammaáætlun, þannig að færi gefist til að finna betri útfærslur á virkjunarkostum í þessum eða síðari áföngum áætlunarinnar og meta nýjar upplýsingar eða sjónarmið um náttúrufar og fleira. Sama gildir um svæði í nýtingarflokki, þar kunna að koma fram óskir um breytt fyrirkomulag eða nýjar upplýsingar og sjónarmið sem breyta flokkuninni í næsta áfanga. Að svæði sé sett í nýtingarflokk jafngildir heldur ekki ákvörðun um virkjun - lögin um rammaáætlun koma ekki í stað raforkulaga eða auðlindalaga.

Stjórnsýsluleg meðferð gerir þá kröfu til allra þeirra sem um málið fjalla að málsaðilar séu upplýstir um það á hvaða forsendum flokkunin byggir. Bæði Orkustofnun og verkefnisstjórn hafa upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu gagnvart þeim aðilum sem leggja fram virkjunarkosti, þannig að þeir fái tækifæri til að skila fullnægjandi gögnum. Til þess að svo megi vera þurfa gagnakröfur Orkustofnunar og verkefnisstjórnar að liggja fyrir áður en flokkun hefst. Slíkum kröfum skal samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana og leiðbeiningum Skipulagsstofnunar lýst í matslýsingu. Í tilfelli Orkustofnunar er þeim kröfum fullnægt með reglugerð og leiðbeiningum á vef stofnunarinnar og skal þar sérstaklega bent á kafla 1, kafla 8 og minnisblað Alta:

Í matslýsingu vegna umhverfismats áætlunar þarf að koma fram hvaða stefnumið verði metin, umhverfisþættir tilgreindir, viðmiðanir við matið og hvernig staðið verður að samráði og kynningu. Skýr hliðstæða er í skipulagslögum þar sem kveðið er á um slíka lýsingu fyrir skipulagsáætlanir.

Tilhögun virkjunarkosta sem Orkustofnun lagði fram sem sínar hugmyndir þann 20. janúar 2015 og voru flokkaðir í verndarflokk í öðrum áfanga rammaáætlunar er óbreytt. Stofnunin væntir þess að stjórnsýsluleg meðferð með faglegri flokkun virkjunarkosta á grundvelli matslýsingar, muni leiða í ljós á hvaða forsendum flokkun á sér stað. Mögulega gefist því tækifæri til þess í framtíðinni að útfæra virkjunarkosti sem flokkaðir verða í verndarflokk með öðrum hætti ef forsendur breytast.