Fréttir


Sendinefnd frá Frakklandi fundar með íslenskum sérfræðingum á sviði jarðhita

22.12.2014

Sérfræðingar frá ráðuneyti sjálfbærrar þróunar, vistkerfa og orkumála í Frakklandi, stofnunum og fyrirtækjum funduðu með íslenskum sérfræðingum á sviði jarðhita dagana 16. – 17. desember sl. 

Fundurinn var haldinn í framhaldi af fundi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og ráðherra sjálfbærrar þróunar, vistkerfa og orkumála í Frakklandi sl. vor þar sem stefnt var að auknu samstarfi landanna á sviði orkumála. 

Franska sendinefndin fundaði með sérfræðingum frá verkfræðistofum, Orkustofnun, ISOR, jarðhitaklasanum, Jarðborunum, Reykjavik Geothermal og fulltrúum frá utanríkisráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunaráaráðuneytinu. 

Í máli frönsku aðilanna kom fram að, stefnt sé að auknum umsvifum á sviði jarðvarma, á einstaka svæðum í Frakklandi sem og á erlendum vettvangi m.a. á frönskum eyjum í Karabíska hafinu. Einnig er stefnt að því að efla jarðhitaklasann í Frakklandi, þar sem sérstök áhersla er á samstarf í útflutningi og alþjóðlegum verkefnum á þessu sviði. Vegna þessa var aukið samstarf við íslensk fyrirtæki  og stofnanir sérstaklega til athugunar og frönsk fyrirtæki og aðilar kynntu sína stafsemi á sviði jarðhita. Þau fyrirtæki og stofnanir sem sendu fulltrúa frá Frakkaldi voru m.a.  BRGM, ADEME, CFG Services, Clemessy, Cryostar og MEDDE/ DGE.

Af hálfu íslenskra aðila, var áhersla lögð á að kynna almennt fyrir frönsku aðilunum fjölbreytta starfsemi á sviði jarðvarma á Íslandi.  Fjallað var um þróun hitaveitna á Íslandi,  starf Orkustofnunar í samstarfi við Uppbyggingarsjóð EES í Evrópu á sviði endurnýjanlegrar orku, samstarfsverkefnið Geothermal ERA-NET sem eru jarðhitaverkefni á sviði stefnumótunar innan EES á vegum Evrópusambandsins sem  Orkustofnun stýrir. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna kynnti starfsemi sína og jarðhitaklasinn kynnti sína starfsemi, og kynnt var sú fjölbreytta og alþjóðlega starfsemi sem íslensk fyrirtæki vinna að um heim allan á sviði jarðhita.  Einnig var starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur skoðuð og kynnt. 

Í lok fundarins fóru svo fram viðræður einstakra fyrirtækja og aðila á þeim möguleikum sem hægt væri að vinna frekar að á næstunni, og stefnt er að frekari fundum síðar. Rætt var um hugsanleg verkefni í París, Djíbútí, Martiník og Dominíka.

Orkustofnun í samstarfi við franska sendiráðið skipulagði heimsóknina og var markmiðið að auka samstarf ríkjanna, á flestum sviðum jarðvarma, allt frá rannsóknum til einstakra verkefna.