Fréttir


Vegna ummæla um vistvænt eldsneyti

8.12.2014

Vegna ummæla Guðrúnar Rögnu Garðarsdóttur í fjölmiðlum í gær, 7. desember og ummæla Frosta Sigurðssonar og Willum Þórs Þórssonar á alþingi í dag, 8. desember, er rétt að benda á eftirfarandi.

Því hefur verið haldið fram að þar sem Ísland sé yfir heildarmarkmiði Evrópusambandsins um endurnýjanlega orkugjafa sé ekki þörf á því að innleiða lög um söluskyldu olíufélaganna. Þetta er ekki rétt. Þrátt fyrir að Ísland sé yfir heildarmarkmiðinu, erum við langt frá því að ná markmiðinu um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum. Markmiðið þar er 10% hlutfall árið 2020 en við erum í 1,3% í dag. 

Það er ekki hægt að sniðganga alþjóðasamþykktir að geðþótta. Við undirritun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gengumst við undir ákveðnar skyldur, þ.m.t. þessi markmið um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, og í hvert skipti sem við brjótum í bága við þær eigum við á hættu að fá á okkur stjórnvaldssektir. Þær sektir renna óskiptar úr landi, upphæð þeirra er ekki ákveðin af íslenskum stjórnvöldum og ekkert kemur til baka.

Til þess að koma íslenskri eldsneytisframleiðslu af stað, þarf markaður að vera fyrir hendi. Markaðurinn er ekki fyrir hendi þegar innlenda eldsneytið er dýrara í innkaupum fyrir olíufélögin en jarðefnaeldsneyti. Innlenda eldsneytið er dýrara m.a. vegna þess að íslensku fyrirtækin eru að greiða niður vöruþróun og nýjar fjárfestingar sem erlendir olíurisar eru ekki að gera.

Til að höggva á þennan hnút felldi Alþingi með lögum nr. 156/2010 niður vörugjöld af endurnýjanlegu eldsneyti og setti með lögum nr. 40/2013 þá kvöð á olíufélögin að þau seldu ákveðið hlutfall af endurnýjanlegu eldsneyti. Þar með var markaðurinn kominn og nú eru íslensk sprotafyrirtæki í óða önn að koma sinni framleiðslu af stað og á markað. Þar kennir ýmissa grasa, menn eru að skoða metansöfnun og metangerð, lífdísilolíuframleiðslu úr úrgangi eða sérstaklega ræktuðum orkujurtum, metanól úr raforku og afgasi jarðvarmavirkjana og margt fleira.

Þegar gefið er í skyn að vistvænt eldsneyti sé ekki til á Íslandi, eða a.m.k. ekki í nægu magni til að uppfylla markmið laganna, þá er líka farið með rangt mál. Til sölumarkmiðs laganna um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi telst allt endurnýjanlegt eldsneyti, þ.m.t. raforka, metan, metanól, lífdísilolía, etanól og vetni. Þegar allt er talið saman, þá eigum við nægjanlegt hráefni til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti bæði á öll okkar skip og alla okkar bíla og eigum samt afgang. Það er ekki og hefur aldrei verið vandamálið.

Það tekur íslensku sprotafyrirtækin engu að síður nokkurn tíma að taka við sér. Þar til íslenska framleiðslan er komin á fullt verður endurnýjanlegt eldsneyti flutt inn. Jafnframt má gera því skóna, að eins lengi og jarðefnaeldsneyti verði innflutt, verði eitthvað flutt inn af vistvænu eldsneyti enda er það orðið venjan í öllum okkar nágrannalöndum að jarðefnaeldsneyti sé íblandað endurnýjanlegu eldsneyti.

Frestun ákvæðis um söluskyldu olíufélaganna mun gera miklu meira en hugsanlega spara einhverjar krónur. Auk þess álitshnekkis sem við munum hljóta á alþjóðavettvangi, mun slík frestun kippa rekstrargrundvellinum undan fjölmörgum íslenskum sprotafyrirtækjum og skaða traust fjárfesta enn frekar á íslenskum stjórnvöldum. Margir frumkvöðlar voru hikandi að fara af stað með sína framleiðslu áður en lögin voru sett, þar sem þeir treystu ekki yfirlýstum fyrirætlunum stjórnvalda fyrr en þau urðu að lögum.