Fréttir


Engin leyfi eru í gildi vegna áveituframkvæmda úr Skaftá út á Eldhraun

27.11.2014

Hluti af því svæði sem verður fyrir áveituvatni er á náttúruminjaskrá. Áveituvatnið hefur að sögn Landgræðslunnar valdið gríðarlegri gróðureyðingu í Eldhrauni sem er einstök náttúruperla.

Landgræðsla ríkisins hefur óskað álits Orkustofnunar á lögmæti núverandi áveituframkvæmda úr Skaftá út á Eldhraun á Út-Síðu í Skaftárhreppi með vísan til nokkurra ákvæða í vatnalögum en Orkustofnun hefur farið með stjórnsýslu og leyfisveitingar skv. lögunum frá 28. september 2011.

Fram kemur í erindi Landgræðslu ríkisins að umræddar áveitur, í landi Áar, [við Árkvíslar/Brest] og í landi Skálar valdi og hafi valdið gríðarlegri gróðureyðingu í Eldhrauni og valdið miklum skaða á nærliggjandi jörðum. Í Eldhrauni séu stærstu gamburmosabreiður í heimi, sem hafi að hluta til hulist sandi og jökulaur. Þá sé hluti af því svæði sem verður fyrir áveituvatni á náttúruminjaskrá og Eldhraunið allt sé einstök náttúruperla. Tekið er fram að Landgræðslan hafi leitað samkomulags við þá bændur sem staðið hafa fyrir áveitunum, í meira en aldarfjórðung, um að draga úr áveitunum að sumarlagi en auka þær hugsanlega að vetralagi, en án árangurs. Sandfok aukist nú stöðugt og muni brátt ógna umferð á hringveginum. Þá er fullyrt að hvergi á landinu sé meiri gróðureyðing en út frá farvegum Skaftár, þó vatnaveitingum sé ekki um að kenna nema í Eldhrauni. 

Í áliti Orkustofnunar frá 20. nóvember sl. kemur fram að óheimilt er, nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess, að breyta vatnsbotni, straumstefnu, vatnsmagni eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð. Að mati Orkustofnunar eru nú engin slík leyfi í gildi á vatnasviði Skaftár, hvorki útgefin af viðkomandi ráðherra né af Orkustofnun eftir að málaflokkurinn fluttist til hennar. Slík leyfi þurfa hins vegar að liggja fyrir, þar sem kveðið er á um nánari skilyrði að teknu tillit til ákvæða m.a. náttúruverndarlaga og eftir atvikum hagsmuna aðila málsins, landeigenda og viðkomandi veiðifélaga við Skaftá, Grenlæk og Tungulæk.

Af þessu leiðir að það er álit Orkustofnunar að Landgræðslu ríkisins sé heimilt að grípa til hverra þeirra ráðstafana sem Landgræðslan telur nauðsynlegar til að koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með fyrirhleðslum gegn ágangi Skaftár, með fyrirvara um andmælarétt aðila máls, m.a. Skaftárhrepps, viðkomandi landeigenda við Skaftá, í Landbroti og Meðallandi og viðkomandi veiðifélaga.

Álitið í heild sinni, sem kynnt hefur verið fyrir aðilum málsins, má sjá hér.