Fréttir


Orkustofnun kallar eftir gögnum frá orkufyrirtækjum

14.11.2014

Orkustofnun hefur kallað eftir stöðluðum upplýsingum frá orkufyrirtækjum um tilhögun virkjunarkosta, sem þau gerðu tillögur um til meðferðar í 3. áfanga rammaáætlunar. Fyrirtækin hafa frest til áramóta til að svara.

Við undirbúning Orkustofnunar vegna virkjunarkosta sem stofnunin leggur fyrir verkefnisstjórn hefur þeim fækkað úr 91, sem kynntir voru í mars 2014, í 82 virkjunarkosti.

Stofnunin sendi verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar yfirlit um þá virkjunarkosti sem lagðir yrðu fram í mars 2014, og voru á þeim lista 91 virkjunarkostur, 49 í vatnsafli, 38 í jarðvarma og 4 í vindorku. Þar af voru 64 virkjunarkostir sem fjallað hafði verið um áður. Síðan þá hefur stofnunin rýnt betur grundvöll sinn skv. lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) og komist að þeirri niðurstöðu að lögin nái ekki til virkjunarkosta í vindorku.

Gefið var út virkjunarleyfi fyrir Þeistareykjavirkjun í millitíðinni, auk þess sem ákveðið var að fjallað yrði um stækkun Kröflu og Kröflu II 1. og 2. áfanga sem einn valkost og að sama gilti um tvo áfanga Hágönguvirkjunar. Þessu til viðbótar var ákveðið að fella Skúfnavatnavirkjun út af listanum, þar sem ólíklegt mætti telja að hún næði 10 MW markinu, sem er forsenda meðhöndlunar í rammaáætlun. Leiðir þetta allt til þess að eftir verða 48 virkjunarkostir í vatnsafli, 34 í jarðvarma og enginn í vindorku, eða 82 virkjunarí kostir.

Vandlega hefur verið íhugað hvernig framsetning viðkomandi á gögnum til skilgreiningar á tilhögun virkjunarkosta samrýmdist sem best lögum og reglugerð um rammaáætlun og lögum um umhverfismat áætlana. Kallað er eftir stöðluðum upplýsingum um virkjunarkostina, sem gagnast ættu á áætlanastigi og myndu að auki fullnægja kröfum um vandaða meðferð skv. stjórnsýslulögum.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Orkustofnunar