Vel sótt miðvikudagserindi um vindmyllur í Þykkvabæ
Í krafti vindsins var fyrsta miðvikudagserindi vetrarins. Um fimmtíu áhugasamir gestir komu saman í hádeginu gær til að fræðast um vindmyllur sem settar hafa verið upp í Þykkvabæ.

Snorri Sturluson frá Biokraft kynnti verkefnið og svaraði spurningum áhugasamra gesta í lokin. Vindmyllurnar eru fluttar inn frá Þýskalandi þar sem þær voru notaðar áður og eru af gerðinni Vestas. Afl hvorrar um sig er 600kW, þvermál vængja er 44 metrar og er hver vængur 21 metri. Þær eru um 70 metrar á hæð sem er svipað og Hallgrímskirkjuturn.
Snorri fór yfir ferlið frá því hugmyndin kom upp og til dagsins í dag en vindmyllurnar keyra nú á fullum krafti og framleiðslan á að geta fullnægt raforkuþörf um þúsund heimila. Eigendur Biokraft eru þeir Snorri Sturluson og Steingrímur Erlingsson en báðir eru þeir vélstjórar.
Miklar umræður og vangaveltur um framtíðina í orkumálum áttu sér stað. Menn veltu því jafnframt fyrir sér hvort framkvæmdin væri hagkvæm en Snorri sagði að um tilraunaverkefni væri að ræða þar sem markmiðið til að byrja með sé fyrst og fremst að sýna fram á að hægt sé að reka vindmyllur á Íslandi.
Erindi Snorra má nálgast hér