Fréttir


Útskrift Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

20.10.2014

Þrítugasti og sjötti árgangur Jarðhitaskólans útskrifaðist síðasta föstudag þann 17. október.  Athöfnin fór fram í Víðgelmi fyrirlestarsal Orkugarðs. Að þessu sinni útskrifuðust 29 nemendur frá 14 löndum.

Nemendur komu frá Bólivíu (1), Kína (1), Djibouti (2), Ekvador (1), El Salvador (1), Eþíópíu (2), Íran (1), Kenýa (11), Papúa Nýja-Gínea (1), Portúgal (2), Rúanda (2), Sankti Vinsent og Grenadíneyjar (1), Súdan (1) og Tansanía (1).

Frá upphafi hafa 583 nemendur frá 58 löndum útskrifast úr skólanum, en auk þess stendur skólinn fyrir styttri námskeiðum í þróunarlöndum þar sem fleiri sérfræðingum gefst tækifæri á þjálfun.

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur starfað í Reykjavík frá 1979 og er hluti af þróunaraðstoð Íslendinga. Árlega koma um og yfir 30 raunvísindamenn og verkfræðingar frá þróunarlöndunum til 6 mánaða sérhæfðs náms í jarðhitafræðum og á annan tug eru í meistara- og doktorsnámi í samvinnu við Háskóla Íslands. Auk þess heldur skólinn árleg námskeið í Afríku og Mið-Ameríku. Jarðhitaskólinn er rekinn sem sjálfstæð eining innan Orkustofnunar. Fastir starfsmenn eru sex, en að auki kemur að kennslu fjöldi sérfræðinga frá rannsóknastofnunum, háskólum, verkfræðistofum og veitustofnunum.