Fréttir


Rannsóknir á Drekasvæði á áætlun

18.9.2014

Handhafar sérleyfanna þriggja á Drekasvæðinu fylgja rannsóknaráætlun leyfanna. Leyfin hafa mislangan gildistíma en þau eiga það sameiginlegt að fyrstu árin byggja rannsóknirnar á greiningu á fyrirliggjandi gögnum og undirbúningi fyrir fyrstu mælingar á vegum leyfishafanna.

Rannsóknaráætlununum er skipt upp í áfanga á þann hátt að í lok hvers áfanga þurfa leyfishafar að taka ákvörðun um hvort þeir skuldbinda sig til að takast á við rannsóknir sem áætlaðar eru í næsta hluta eða að öðrum kosti gefa leyfið eftir. Sem dæmi þá þurfa Faroe Petroleum og leyfishafar með þeim að taka ákvörðun um framhald fyrir 4. janúar nk.  sem þýðir að þeir þurfa annaðhvort að skuldbinda sig til að gera tvívíðar endurkastsmælingar á næstu tveimur árum eða gefa leyfið eftir.

Tvívíðar endurkastsmælingar eru hluti af fyrsta áfanga í hinum sérleyfunum tveimur þannig að þeir leyfishafar hafa þegar skuldbundið sig til að gera slíkar mælingar á næstunni, jafnvel á næsta ári.

Orkustofnun fer með eftirlit með rannsóknum leyfishafa og situr fundi með leyfishópunum þar sem fjallað er um framgang rannsókna og gerðar áætlanir um framhaldið.


Handhafar Faroe Petroleum leyfis: Faroe Petroleum (rekstraraðili), Íslenskt kolvetni, Petoro Iceland

Handhafar Ithaca Petroleum leyfis: Ithaca Petroleum (rekstraraðili), Kolvetni, Petoro Iceland

Handhafar CNOOC International leyfis: CNOOC International (rekstraraðili), Eykon, Petoro Iceland