Orkuáætlunin RONDINE styrkir fjögur verkefni á sviði vatnsafls og jarðvarma
Heildarumfang verkefna er um 6 milljarðar króna og þar af eru verkefni með þátttöku fimm íslenskra fyrirtækja að upphæð um 4 ma. kr. Nýting jarðvarma til húshitunar í Rúmeníu mun aukast um 30%.
Að beiðni utanríkisráðuneytisins frá árinu 2010 hefur Orkustofnun undanfarin fjögur ár tekið þátt í mótun og nú framkvæmd orkuáætlana á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Orkustofnun hóf beint samstarf við rúmenska ríkið árið 2012 með systurstofnun Orkustofnunar í Noregi (NVE) og þá sérstaklega við umhverfis- og orkusjóð Rúmeníu (AFM) sem saman mynda stýrihóp RONDINE orkuáætlunarinnar.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, setti áætlunina í Búkarest í desember 2013 þar sem íslensk fyrirtæki í boði sjóðsins höfðu tök á að kynna starfsemi sína og eiga fundi með rúmenskum aðilum ásamt norskum.
Í mars 2014 var opnað fyrir umsóknir um styrki í RONDINE áætlunina sem lauk 20. maí 2014. Fjárveitingin skiptist jafnt milli vatnsafls og hitaveitna. Í Rúmeníu eru yfir 100 fjarvarmaveitur sem nýta jarðefnaeldsneyti og þar af er stór hluti sem nýtir innflutt gas auk þess sem mikið er af ónýttu vatnsafli.
RONDINE skipulagði í framhaldinu heimsóknir til bæði Noregs og Íslands. Fulltrúum rúmenska ríkisins, sveitarfélögum og einkafyrirtækjum var boðið til Íslands á vegum sjóðsins og samtals komu 16 manns til landsins. Sendinefndinni var sýndur árangur Íslands á sviði orkumála auk þess sem svigrúm var veitt til fundarhalda milli hugsanlegra samstarfsaðila.
Samtals bárust 10 verkefni til RONDINE og hefur stýrihópur RONDINE ákveðið að styrkja fimm þeirra sem hæfust voru skv. þeim reglum og kröfum sem gilda að undangengnu mati alþjóðlegs ráðgjafafyrirtækis. Af þessum fimm voru þrjú verkefni í samstarfi við fimm íslensk fyrirtæki og eitt í samstarfi við norskt fyrirtæki.
Heildarumfang verkefnanna sem fengu styrki eru um 6 milljarðar króna, þar af er umfang verkefna með íslenskri þátttöku um 4 milljarðar króna, en þar af er styrkur EES sjóðsins og opinberra aðila í Rúmeníu um 50%.
Fimm íslensk fyrirtæki munu taka þátt í uppbyggingu þessara þriggja orkuverkefna á þremur svæðum í Rúmeníu, en þau eru: Mannvit, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Iceland Geothermal Engineering, Landsvirkjun Power og Verkís. Gert er ráð fyrir að verkefnin á sviði jarðvarma með þátttöku íslensku fyrirtækjanna muni auka nýtingu jarðvarma í Rúmeníu um allt að 30% sem telja verður mikla aukningu. Verkefnin eru eftirfarandi:
Verkefni á sviði jarðvarma
Jarðhitaverkefni í borginni Timisoara, þar sem bora á vinnsluholu og niðurdælingarholu til að nýta jarðhitavatn fyrir fjarvarmaveitu í borginni. Þátttakendur í verkefninu eru, Mannvit, SIFEE TERRA HEAT frá Rúmeníu í samstarfi við Timisoaraborg og Colterm orkuveitu borgarinnar. Einnig kemur ÍSOR að verkefninu.
Jarðhitaverkefni í borginni Oradea þar sem setja á upp dælubúnað í borholu sem fyrir er auk þess að bora niðurdælingarholu og nýta heitt vatn til upphitunar í borginni. Þátttakendur í verkefninu eru Icelandic Geothermal Engineering Ltd. (IGE, Íslensk Jarðhitatækni ehf), Transgex og Oradeaborg.
Verkefni á sviði vatnsafls
Uppbygging á tveimur litlum vatnsaflsvirkjunum í Mara ánni á svæðinu Somes-Tisa í norður Rúmeníu.Þátttakendurnir í verkefninu eru Landsvirkjun Power og Verkfræðistofan Verkís.
Uppbygging á tveimur litlum vatnsaflsvirkjunum á svæðinu Tarcau í norðaustur Rúmeníu. Þátttakendurnir í verkefninu eru fyrirtækin S.C. CORPAD S.R.L. og Sweco Norge AS.
Lítil vatnsaflsvirkjun í Timis ánni í vestur Rúmeníu. Framkvæmdaaðili er SSM PREST S.R.L.