Námskeið fyrir þá sem vilja virkja bæjarlækinn
Að námskeiðinu Orkubóndinn 2, sem haldið verður á Hrollaugsstöðum í Suðursveit þann 14. júní, standa Orkusetur Orkustofnunar ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands og tveimur frumkvöðlafyrirtækjum.
Námskeiðið er ætlað einstaklingum, fyrirtækjum, landeigendum og bændum sem vilja virkja bæjarlækinn í smáum en hagkvæmum stíl.
Námskeiðið verður haldið á Hrollaugsstöðum í Suðursveit, laugardaginn 14. júní frá klukkan 10:00 - 17:00. Ef vel tekst til er stefnt á að fara með námskeiðið Orkubóndann um landið á næstu misserum.
Á haustmánuðum ársins 2009 fór Nýsköpunarmiðstöð Íslands af stað með námskeiðið Orkubóndinn og var það námskeið ætlað þeim sem vildu framleiða eigin orku. Vaxandi áhugi er fyrir því að beisla orku, hvar sem hana er að finna og á Íslandi er mikið af endurnýjanlegri orku sem hægt er að nýta í smáum og meðalstórum virkjunum. Því var farið að stað með Orkubóndann til að koma til móts við áhugafólk um virkjun orku, einstaklinga, fyrirtæki, landeigendur og bændur sem hafa áhuga á að beisla orkuna heima fyrir. Námskeiðið var haldið víða um land og sóttu um 800 manns námskeiðin sem þóttu takast afar vel.
Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráningu má finna á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands