Fréttir


Orkustofnun stýrir stærsta samstarfsverkefni á sviði jarðvarma innan Evrópu

2.6.2014

Jarðhitaverkefnið ERA-NET er fjögurra ára samstarfsverkefni innan rannsóknaráætlana EU / EES, sem hófst á árinu 2012. Verkefnið er stærsta samstarfsverkefni landa á sviði jarðhitaverkefna innan 7. Rammaáætlunar með framlag upp á rúmlega 300 milljónir króna frá áætluninni.

Verkefninu er stýrt af Orkustofnun á Íslandi en auk Íslands, taka rannsóknaraðilar frá Hollandi, Frakklandi, Sviss, Þýskalandi, Ítalíu, Ungverjalandi, Tyrklandi og Slóvakíu þátt í verkefninu. 

Við val á ríkjum til samstarfsins var meðal annars litið til markmiða um nýtingu á jarðhita, öryggis í orkuöflun og hvernig þær aðgerðir samræmast markmiðum Evrópusambandsins til þess að draga úr losun koltvísýrings (CO2) til áranna 2020 og 2050. 

Markmið ERA-NET áætlunarinnar er að auka samstarf og samhæfingu rannsókna og rannsóknaráætlana í Evrópulöndum og efla þróun og tækifæri á sviði jarðvarma í þessum löndum.

ERA NET jarðhitaverkefnið er samstarf til fjögurra ára og er fyrirséð að verkefnið muni stuðla að auknu fjárflæði til jarðhitarannsókna í Evrópu sem aftur gæti þýtt ný verkefni á sviði jarðhitanýtingar. Systurstofnanir Orkustofnunar í Evrópu og ráðuneyti geta þá sett sér sameiginleg markmið, en eitt af markmiðum ERA-NET á sviði jarðhita er að byggja upp sameiginlegan gagnagrunn í jarðhita.

Verkefnið er frábrugðið hefðbundnum rannsóknarverkefnum að því leyti að hér er veittur styrkur til samþættingar og samræmingar á rannsóknaráætlunum landanna sem að samstarfinu standa en ekki til eiginlegrar rannsóknarvinnu. Því má segja að ERA NET sé fyrsta skrefið í átt að samræmdri rannsóknaráætlun innan Evrópusambandsins í gegnum hið svokallaða SET PLAN (European Strategic Energy Technology Plan). 

Verkefnið gefur út fréttabréf og í nýjustu útgáfu fréttabréfsins er meðal annars fjallað um hitaveitur á Íslandi og þann sparnað sem af þeim hlýst, en hann er talinn vera um 7% af landsframeiðslu, sem jafngildir sparnaði um 350,000 á hvern íbúa hér á landi eða um rúmum 100 milljörðum á ári. Einnig er talið að aukinn notkun á jarðhita innan Evrópu geti sparað a.m.k. 2000 milljarða króna.    

Þá er fjallað um þau tækifæri sem eru til staðar í Evrópu en nokkur lönd í Evrópu eru nú þegar að nýta jarðhita í einhverju mæli þó Ísland og Ítalía séu þar stærst.

 

Til að auka öryggi í framboði af orku innan Evrópu, auka sparnað og draga úr mengum, mun þörfin fyrir aukinn jarðhita aukast í framtíð.  

 

Fréttabréf ERA NET verkefnisins á ensku frá maí 2014, má finna hér.