Fréttir


Ársfundur 2014

11.4.2014

Á fundinum var sérstök áhersla lögð á umfjöllun um jarðhita erlendis. Fjallað var um jarðhita í löndum allt frá Evrópu til Afríku og gestafyrirlesari frá Reykjavik Geothermal flutti erindi um jarðhitaverkefni í Eþíópíu.

Ársfundur Orkustofnunar fór fram í Víkinni, Sjóminjasafninu í gær.


Ávarp flutti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og þakkaði hún starfsfólki stofnunarinnar fyrir vel unnin störf.

Einnig flutti Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri ávarp, þar sem hann fór yfir liðið ár og þau verkefni sem stofnunin hefur staðið frammi fyrir.Ingimar G. Haraldsson frá Jarðhitaskólanum fjallaði um nemendur skólans en jafnframt þau tímamót sem skólinn gekk í gegnum á síðasta ári en rektor skólans Ingvar Birgir Friðleifsson sem starfað hafði við skólann frá stofnun hans 1979 hætti störfum á árinu.Verkefnisstjóri Jarðhitanýtingar hjá Orkstofnun, Jónas Ketilsson, fjallaði um aukinn áhuga á innlendri orkuöflun og orkuöryggi í löndum Mið- og Austur-Evrópu í kjölfarið á ástandinu í Úkraínu og áhrifum þess á gasflutninga frá Rússlandi, og í samhengi við það ræddi Jónas EFTA sjóðinn og þau verkefni hans í jarðhitanýtingu sem stofnunin hefur haft umsjón með síðan 2011. Ljóst er að íslensk sérþekking á sviði jarðhita getur gagnast öðrum þjóðum vel og með tilkomu sjóðsins þá gefast íslenskum fyrirtækjum tækifæri á að stunda viðskipti í löndum eins og Rúmeníu, Búlgaríu og á Azoreyjum í Portúgal. Nánar er fjallað um þessi mál í ársskýrslunni og í glærum Jónasar frá fundinum í gær.


Hjalti Páll Ingólfsson fór yfir þau samvinnuverkefni  á sviði jarðhitarannsókna sem hann hefur stýrt bæði sem starfsmaður Orkustofnunar og GEORG.

Gunnar Örn Gunnarsson frá Reykjavik Geothermal hélt erindi um þau verkefni sem fyrirtækið hefur unnið að, meðal annars 500 MW jarðhitavirkjun í Corbetti, Eþíópíu. Í erindi Gunnars kom fram að í Eþíópíu búa 95 milljónir manna og uppsett afl rafmagns er um það bil það sama og á Íslandi þar sem búa rúmlega 300.000 manns svo ljóst er að mikil þörf er á orku í Eþíópíu og annars staðar í Afríku.


Glærur frá fundinum

Jarðhitaskólinn á tímamótum

Jarðhiti innan EES í stað innflutts eldsneytis

Samvinna í alþjóðlegum jarðhitarannsóknum

Jarðhitaorkuver í Corbetti Eþíópíu