Orkustofnun veitir rannsóknarleyfi í Gjástykki
Orkustofnun veitti Landsvirkjun, þann 24.mars síðastliðinn, rannsóknarleyfi á jarðhita, grunnvatni og efnisnámum í Gjástykki í Þingeyjarsýslum vegna mögulegrar orkuvinnslu.
Við undirbúning leyfisveitingarinnar þurfti að leita eftir samþykki Umhverfisstofnunar þar sem Gjástykki er í verndarflokki rammaáætlunar. Í leyfinu eru eingöngu heimilaðar yfirborðsrannsóknir en í þeim felast rekstur jarðskjálftamæla og mælingar í borholum sem þegar eru til staðar. Rannsóknir sem fela í sér könnun jarðlaga með borun eða greftri eða aðrar rannsóknir sem fela í sér rask á yfirborðinu eru ekki leyfðar.
Í fylgibréfi Orkustofnunar kemur meðal annars fram að heimilt er að framkvæma „yfirborðsrannsóknir“ á svæðum í verndarflokki rammaáætlunar, feli slíkar rannsóknir ekki í sér varanlega mannvirkjagerð eða röskun á landslagi, náttúru eða menningarsögulegum minjum.
Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun þótti ekki réttlætanlegt að útiloka með öllu orkurannsóknir á svæðum í verndarflokki, enda þarf Orkustofnun að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu og tryggja að fyrir liggi grunnupplýsingar um allar orkulindir landsins. Slíkar upplýsingar geta verið mikilvægar í samanburðar tilgangi eða öðrum almennum tilgangi. Þá þótti ekki rétt að útiloka að slíkar grunnrannsóknir séu stundaðar af orkufyrirtækjum eða öðrum aðilum. Í fylgibréfi Orkustofnunar með leyfisveitingunni er tekið fram að rannsóknaráætlun Landsvirkjunar í Gjástykki falli að umræddri skilgreiningu á yfirborðsrannsóknum.