Fréttir


Styrkveitingar úr Uppbyggingarsjóði EES til hitaveitna og vatnsaflsvirkjana í Rúmeníu

26.3.2014

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki á sviði jarðhita og vatnsafls í Rúmeníu. Umsóknarfrestur er til 20. maí 2014.

Orkustofnun hefur undirbúið áætlunina undanfarin tvö ár í samstarfi við fulltrúa rúmenska ríkisins, Uppbygginarsjóðs EES og NVE í Noregi. Til þess að styðja sérstaklega við tengslamyndun og undirbúning umsókna verður rúmenskum aðilum boðið að koma til Íslands í byrjun maí og er enn opið fyrir umsóknir í ferðina til Íslands fyrir rúmensk fyrirtæki, stofnanir og ráðuneyti. Íslenskum aðilum býðst tækifæri á að taka þátt í þeirri dagskrá og kynna sig fyrir rúmensku aðilunum.

Áætlunin skiptist jafnt milli vatnsafls og jarðvarma. Fyrir vatnsaflið er gert ráð fyrir 50% mótframlagi við endurnýjun á búnaði vatnsaflsvirkjana til að auka raforkuvinnslu þeirra frá því sem nú er. Hinn þáttur áætlunarinnar snýr að uppbyggingu hitaveitna með nýtingu á jarðhita þar sem fyrir er fjarvarmaveita. En í Rúmeníu eru yfir 100 fjarvarmaveitur sem nýta jarðefnaeldsneyti og þar af er stór hluti sem nýtir innflutt gas.

Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er tvíþættur, annarsvegar að efla tvíhliðasamstarf og hinsvegar að draga úr samfélags- og efnahagslegum ójöfnuði. Hvort tveggja er hægt að ná fram með uppbyggingu hitaveitna til að bæta orkuöryggi, orkusjálfstæði og ekki síst til að draga úr losun koldíxíðs, til að bæta loftgæði og lækka kostnað neytenda við húshitun.

Frekari upplýsingar um styrkinn og umsóknarferlið má finna á vefsíðu verkefnisins og eldri frétt um málið er hér.  Upplýsingar um sjóðinn eru aðgengilegar hér ásamt upplýsingum um áætlunina hér.